Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

LÝSINGARORÐ VIKUNNAR: ÓÁÞREIFANLEGT

Því er oft haldið fram að á Íslandi séu formleg mannréttindi virt. Að lög og stjórnarskrá tryggi konum, kvárum og jaðarsettu fólki öll réttindi og leggi blátt bann við mismunun. Misrétti samtímans felist í óáþreifanlegum birtingarmyndum sem erfitt sé að finna stað í lögum og reglum. Útilokandi menning og óviðeigandi framkoma þykir of loðið og óskilgreint til að hægt sé að taka á því af festu.

ER ÞAÐ?

Útilokandi menning er alls ekki óáþreifanleg fyrir þau sem fyrir henni verða. Niðurlægjandi athugasemdir, brandarar, hrútskýringar og almenn vanvirðing getur þvert á móti haft umtalsverð áhrif á líðan, þátttöku, frammistöðu og tækifæri fólks sem tilheyrir jaðarsettum hópum.

Vararíkissaksóknari særir hinsegin fólk þegar hann fullyrðir að fólk sem sæki um alþjóðlega vernd vegna kynhneigðar sé að ljúga. Og ekki bara það, heldur sáir hann efasemdarfræjum meðal fólks sem mögulega hefði annars verið tilbúið að styðja umræddan hóp. Hvort tveggja er áþreifanlegt fyrir þau sem fyrir því verða.

Fólkið sem geltir og gjammar að hinsegin fólki úti á götu særir þau sem fyrir því verða, dregur úr öryggiskennd þeirra og hefur þannig áhrif á virkni þess og þátttöku í samfélaginu frá degi til dags. Það er ekkert óáþreifanlegt við það.

Trans fólk verður óvinnufært á meðan það bíður svo árum skiptir eftir lífsnauðsynlegum kynstaðfestandi aðgerðum. Það er ekkert óáþreifanlegt við það.

Það sama má segja um allar þær ótal birtingarmyndir fötlunarfordóma, fitufordóma, rasisma, kvenfyrirlitningar og annarrar útilokandi hegðunar sem viðgengst í samfélaginu í dag. Fólk finnur fyrir þessu öllu með áþreifanlegum hætti.

SKILGREININGARVALD

Ástæðan fyrir því að þessir hlutir þykja óáþreifanlegir er sú að skilgreiningarvaldið er enn hjá fólki sem ekki finnur fyrir því á eigin skinni. Fólki sem skilur ekki áhrifin sem svona hegðun hefur. Fólki sem hefur val um að trúa, virða og beita sér í þágu kvenna og jaðarsetts fólks.

Það þurfti að skilgreina, útskýra og sannfæra fólk um að greiða ætti sanngjörn laun fyrir hjúkrun, uppeldi og þrif sem í aldanna rás voru ólaunuð (og eru svo sem að miklu leyti enn). Konur virtust fá svo óskaplega mikið út úr því að sinna þessum störfum, auk þess sem þær fengu þakklæti og væntumþykju sem væri þeim miklu meira virði en peningar. Það yrði aldrei orðað svona í dag, þó enn byggi vanmat á kvennastörfum á sömu úreltu hugmyndunum.

Það þurfti að skilgreina, útskýra og sannfæra fólk um að samkynhneigð væri ekki geðsjúkdómur. Seinna þótti mörgum að samkynhneigt fólk ætti bara að sætta sig við „staðfesta samvist“ sem hæfilegt framfaraskref og að ættleiðingar væru aðeins viðeigandi fyrir gagnkynhneigt ófatlað sískynja fólk í hjónabandi.

GLEÐILEGA HINSEGINDAGA

Við þurfum að afbyggja hugmyndir okkar um áþreifanleika. Mismunun og útilokun er og verður meinsemd, jafnvel þótt forréttindahópar hafi ekki öðlast á því skilning. Þess vegna er mikilvægt að jaðarsett fólk hafi hátt, tali opinskátt um útlokandi, særandi og skaðlega framkomu sem það verður fyrir og krefjist breytinga. Og enn mikilvægara er að forréttindafólkið hlusti, læri, trúi og virði þá reynslu sem lýst er fyrir því.

Hinsegin dagar standa nú yfir og bjóða upp á ótal tækifæri til alls þessa. Þeir veita okkur öllum tækifæri til að fagna fjölbreytileikanum, gleðjast yfir sigrunum sem hafa áunnist – en standa á sama tíma keik í þeirri baráttu sem framundan er gegn áþreifanlegum en kannski stundum illskiljanlegum hindrunum í daglegu lífi hinsegin fólks.

Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: