Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: SJÁLFSTÆÐI FÓLKS OG ÞJÓÐA

Ég kláraði síðustu seríu Borgen í vikunni. Þættirnir eru sannarlega umhugsunarefni á þjóðhátíðardegi Íslendinga, enda draga þeir upp ansi svæsna mynd af framkomu danskra stjórnvalda gagnvart Grænlendingum. Nýlendustefna er nefnilega ekki bara sögulegt fyrirbæri. Rík vestræn lönd eiga enn fullt af nýlendum og koma alls ekki bara fallega fram við fólkið sem þar býr.

Ég fór tvisvar til Nuuk á vegum borgarstjórnar. Í bæði skiptin misbauð mér hvernig skörp stéttskipting hafði áhrif á líf, líðan og aðstæður fólksins þar. Hrörlegar blokkirnar sem Danirnir höfðu byggt en haldið illa við, menntakerfið sem gerir ráð fyrir að fólk tali lýtalausa dönsku á efri stigum og svo hið daglega líf í bænum sem einkenndist af mikilli aðgreiningu frumbyggja og Dana þó reglur um slíkt væru hvergi skráðar.

Margar hræðilegar sögur eru til af framkomu Dana gagnvart Grænlendingum gegnum tíðina. Um grænlenska fólkið sem var flutt úr sínum hefðbundnu aðstæðum í vestrænar blokkir. Um grænlensku börnin sem voru rifin frá fjölskyldum sínum til að alast upp hjá „siðmenntuðum“ fjölskyldum í Danmörku. Og nú síðast, um lykkjuna sem sett var í barnungar stúlkur í Grænlandi án þeirra vitundar eða vilja. Í Danmörku mæta Grænlendingar andúð sem er til marks um beinlínis rasísk viðhorf og gildi.

FÓLK OG ÞJÓÐIR

Þessi framkoma Dana er ekki ólík framkomu annarra forréttindahópa gagnvart jaðarhópum. Á Íslandi hafa fötluð börn verið rifin frá fjölskyldum sínum og sett á stofnanir í gegnum tímans rás og ófrjósemisaðgerðir voru framkvæmdar á fötluðum konum langt frameftir síðustu öld án þeirra vilja eða vitundar. Krafa um íslenskukunnáttu er oft gerð fyrir störf sem í raun skiptir engu máli á hvaða tungumáli eru unnin og vinnumarkaðurinn er mjög kyn- og stéttskiptur, þó engar skráðar reglur séu til um slíkt. Allt hefur þetta viðgengist gagnvart fullgildum þegnum sjálfstæðrar þjóðar.

Sem manneskjur eigum við það líka til að misnota forréttindin okkar. Að vanmeta framlag og/eða getu fatlaðs fólks, að dæma fólk fyrir ófullkomna íslenskukunnáttu, að meta hið karllæga ofar hinu kvenlæga og vera almennt á varðbergi gagnvart því sem ekki fellur undir hið viðtekna.

Valdakerfi heimsins er búið til af fólki sem tilheyrir þjóðum. Við sem manneskjur höfum áhrif á allt sem við snertum, þar með talið samfélagið sem við búum í. Við búum okkur til alls konar reglur og viðmið og gildi sem hafa mótandi áhrif á líf, líðan og aðstæður fólks. Þess vegna skiptir máli að við skiljum áhrif meðvitaðrar og ómeðvitaðrar hlutrægni, áttum okkur á veruleika jaðarhópa og afbyggjum hindranir sem skapa mismunun og jaðarsetningu.

GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ

Í dag væri viðeigandi að fagna 78 ára sjálfstæði okkar sem þjóðar með fyrirheitum um að vera minna eins og Danmörk. Að reyna að vera meðvituð um forréttindin okkar og að misnota þau ekki. Að reyna að stuðla að jöfnun tækifæra, aðstæðna, fjármagns og innviða meðal fólks og þjóða, bæði innan samfélagins okkar og á alþjóðavettvangi.

Þetta var síðasta hugleiðingin mín fyrir sumarfrí. Næsta kemur ekki fyrr en einhvern tímann í ágúst. Njótið dagsins og sumarsins.

Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: