Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

ÁKALL VIKUNNAR: RÁÐ FYRIR KERLINGABÓK

Hugleiðing vikunnar er með örlítið óhefðbundnu sniði. Hún er til komin af því ég ætla, í samstarfi við Hildi Lilliendahl Viggósdóttur og Guðnýju Elísu Guðgeirsdóttur, að gefa út bók. Hugmyndin hefur mallað í stuttan tíma en verður betri og betri eftir því sem við höfum viðrað hana við fleira fólk. Ég er sannfærð um að hún getur haft áhrif, bæði pólítískt og persónulega, en til að svo geti orðið óskum við eftir framlagi frá konum og kvárum. Meðfylgjandi texti er sumsé upphafið að vinnunni - og svo sjáum við hvort þetta verður ekki að einhverju stórkostlegu:

Hugtakið kerlingabók hefur í gegnum tíðina verið notað yfir hjátrú, kreddur og bábiljur enda hefur skilgreiningarvald á því sem skiptir máli, því sem virkar og því sem skal miðlað verið í höndum karla í forréttindastöðu.


Af þessu leiðir að erfitt getur reynst fyrir konur og kvár að afla sér upplýsinga og ráða sem lúta að þeirra reynsluheimi, sér í lagi hvað varðar stjórn á eigin aðstæðum og yfirráð yfir eigin líkama. Við slíkar aðstæður er fátt sem jafnast á við gott ráð frá reyndri konu eða kvári.

Það er rangt að afgreiða reynsluheim okkar sem hjátrú, kreddur og bábiljur. Við ætlum að safna saman ráðum frá konum og kvárum til kvenna og kvára, ráðum sem þið hefðuð viljað fá við einhverjar aðstæður í ykkar lífi og teljið að geti verið valdeflandi. Upplýsingum sem geta nýst til að takast á við áföll, hamingju og sorg og allar þær breytingar sem verða á líkama okkar á ævinni.

Vinkona okkar lærði að frysta dömubindi eftir að hún fæddi þriðja barnið. Það er næsta ómögulegt að finna áreiðanlegar upplýsingar um einkenni og ráð sem tengjast breytingaskeiðinu innanum auglýsingar frá snyrtivöru- og bætiefnaframleiðendum. Fyrir tilviljun fann vinkona okkar út að heimilistryggingar dekka réttaraðstoð að einhverju leyti. Flest þekkjum við sambærileg dæmi og þau dæmi viljum við að heyrist sem víðast.

Við óskum eftir ykkar aðstoð. Endilega sendið okkur langar og stuttar sögur, ráð og athugasemdir á 
kerlingabok@gmail.com. Við munum vinna Kerlingabók upp úr efninu, birta það sem við teljum nýtast og gæta fyllsta trúnaðar.

Sóley Tómasdóttir, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Guðný Elísa Guðgeirsdóttir


Ég vona svo innilega að viðbrögðin verði góð og hlakka til að moða úr og miðla efninu. Þið megið endilega leggja ykkar af mörkum með því að senda inn efni og/eða deila ákallinu sem víðast.

Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: