Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð og við sjónarpsþættinum Okkar á milli í gær, þar sem ég fór yfir þær breytingar sem hafa orðið á lífi mínu á undanförnum árum með Sigurlaugu M. Jónasdóttur. Það bókstaflega rignir yfir mig skilaboðum þar sem fólk dáist að seiglu minni, þakkar mér fyrir það sem ég hef gert eða biðst afsökunar, ýmist á að hafa ekki staðið með mér eða á að hafa tekið þátt í fordæmingum á mér. Það er auðvitað dásamlegt og ég er óendanlega þakklát.
Móttökuskilyrðin fyrir femínisma hafa sannarlega breyst. Starrasveimurinn sem hefur tekið við af oddafluginu er að skila árangri. Gerendameðvirkni er að minnka, ábyrgðin á ofbeldi er (hægt) að færast frá þolendum yfir á gerendur. Hugtök á borð við hrútskýringar, menndurtekningar, tilkall og hannúð eru að verða þekktari sem gerir fólki auðveldara að benda á óviðeigandi hegðun eða framkomu. Fyrirtæki keppast um að kaupa af mér ráðgjöf og fræðslu og leggja sig fram um að tryggja bætt starfsumhverfi. Það er margt sem bendir til þess að samfélagið sé að batna.
En ég er ekki eini femínistinn á Íslandi. Ég er nokkuð viss um að aðdáendabréfum rignir ekki yfir allar konurnar í starrasveimnum í sama mæli. Edda Falak og Öfgakonurnar fá reglulega athugasemdir og einkaskilaboð sem eru beinlínis ógnvekjandi. Freyja Haraldsdóttir býr við stöðugar fordæmingar og smánun vegna síns fötlunaraktívisma. Tara Margrét Vilhjálmsdóttir er úthrópuð fyrir líkamsvirðingarbaráttu sína. Allar þessar konur (og fleiri) eru að stuðla að mikilvægri vitundarvakningu. Þær hafa tekið við keflinu og eru að beina sjónum að hlutum sem við eldri konurnar gerðum ekki. Þær eru óþægilegar í dag. En hvernig á sagan eftir að dæma þær?
Þó ég sjái ekki eftir neinu og líði vel í dag, er vont að sjá söguna endurtaka sig. Ég vildi óska þess að samfélagið væri opnara fyrir gagnrýni og að mótstaðan væri minni. Ég vil því skora á ykkur sem nú dáist að mér, að standa með þeim sem tekið hafa við keflinu. Þeim sem eru að benda á nýja og óþægilega hluti. Þeim sem við skiljum ekki alveg og finnst stundum bara vera með vesen.
Bíðum ekki eftir að þessar konur fari í gegnum kulnun og áfallastreituröskunarmeðferð með að dást að þeim. Gerum það núna. Því þær eru æði.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl