FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HORMÓNAR OG BARNAUPPELDI – GRÍN VIKUNNAR?
Í gær var mér bent á klippu úr einhverju afturhaldshlaðvarpi. Þar var kona sem taldi mikilvægt að konur sæju um mýkri hliðar uppeldis og karlar hinar hressari. Hún sagði umönnun ungra barna hafa neikvæð áhrif á testósteronframleiðlsu karla sem gæti leitt af sér þunglyndi og lægri kynhvöt á meðan kvenhormónin þyrftu á samvistum með ungbörnum að halda. Því væri best ef konur væru heima til að byrja með en karlar kæmu seinna að uppeldinu og sæju þá aðallega um að kenna börnum hvatvísi og árásargirni í gegnum leik. Að lokum lagði hún til að samkynja pör veldu sér annað hvort hlutverkið, fólk yrði að ákveða hvort eigi að vera hvað í sambandinu.
Ég ætla ekki að rekja þetta viðtal frekar. Best væri að hlæja bara að þessu og halda áfram. En það er ástæða til að staldra við.
SAMHENGIÐ
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri konu mæra gamaldags kynhlutverk á opinberum vettvangi. Fyrir stuttu talaði önnur kona um að konur eyddu sínum bestu frjósemisárum í skyndikynni á getnaðarvörnum og enn önnur líkti þungunarrofi við helförina.
Við fyrstu sýn kann þetta kann að líta út eins og handahófskenndar skoðanir rugludalla. Þetta er þó ekki handahófskenndara en svo að þær eru allar þrjár skráðar í Miðflokkinn og taka virkan þátt í að tala upp gamaldags hugmyndafræði á fleiri sviðum.
KVENFRELSI LÍKA?
Fullt af fólki hefur bent á viðsjárverða þróun í heiminum. Hér er til dæmis sláandi greining á atburðum líðandi stundar í Bandaríkjunum sem minnir óhugnarlega á þróun nasismans í Þýskalandi á sínum tíma.
Þó gyðingar hafi verið skilgreindir sem höfuðóvinur Þýskalands á fjórða áratugnum, varð allt fólk sem ekki féll undir skilgreiningu á hraustum, hvítum þjóðernissinnum nasismanum að bráð. Talið er að hundruð þúsunda fólks hafi verið myrt í útrýmingarbúðum vegna annarra trúarbragða, fötlunar eða kynhneigðar.
Í Þýskalandi nasismans voru konur sem slíkar engin sérstök ógn, svo fremi sem þær féllu að hinu viðtekna. Síðan þá hafa konur náð fram réttindum til að stýra eigin lífi og líkömum, þær hafa brotist til mennta, farið út á vinnumarkaðinn og hafa vald og áhrif langt umfram það sem þá tíðkaðist. Viðfangsefni harðlínuhægrisins eru því orðin umfangsmeiri og flóknari. Óvinirnir eru ekki lengur bara útlendingar, hinsegin fólk og fatlað fólk. Nútímakonan með öll sín réttindi og frelsi fellur engan veginn að hugmyndafræðinni.
EKKERT GRÍN
Muniði þegar okkur þótti fyndið að Trump væri að bjóða sig fram til forseta? Það voru mistök sem við getum lært af, rétt eins og öðrum sögulegum mistökum. Það er mikilvægt að setja það sem okkur finnst vera fáránlegt rugl í samhengi við þróunina hérlendis og erlendis, samtímann og söguna. Það er ekkert grín þegar ungar konur spretta upp eins og gorkúlur til að tala gegn sjálfsögðum réttindum kvenna.
Uppgangur harðlínuhægris snýst fyrst og fremst um aftuhald. Að draga fólk í dilka, krefjast tilhlýðilegrar hegðunar og afnema áunnin réttindi jaðarsetts fólks. Verum vakandi fyrir þróuninni og stöndum vörð um samfélag þar sem fólk getur öruggt og frjálst verið það sjálft og er metið að verðleikum sem slíkt.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki



