Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Í vikunni var sagt frá enn einum þekktum geranda í íslensku samfélagi. Manni sem hefur haft umtalsverð áhrif á samfélagið, ekki síst í gegnum útvarpsþætti sína til margra ára. Í þeim þáttum hefur ítrekað verið efast um reynsluheim kvenna og jaðarsettra hópa, hæðst hefur verið að femínískum sjónarmiðum og lítið gert úr femínískum baráttumálum. Þess vegna kom frásögn af grófu ofbeldi og ofsóknum mér því ekki á óvart, né heldur yfirlýsingin sem hann sendi frá sér í kjölfarið.
Í vinnunni minni fjalla ég mikið um ósjálfráð varnarviðbrögð fólks sem verður uppvíst að óviðeigandi hegðun eða mismunun, en þau mætti setja upp í fimm skrefa ferli:
Undanfarin misseri höfum við séð margar yfirlýsingar frá meintum gerendum sem fæstir hafa farið í gegnum allt ferlið. Sumir hafa stoppað strax á fyrsta skrefinu og fullyrt að ásakanirnar séu rangar. Aðrir hafa sent frá sér yfirlýsingar um að vissulega hafi þeir hagað sér með ýmiskonar hætti, en þó ekki eins og þolandi lýsi því. Enn aðrir hafa gengist við verknaðinum en lagt sig fram um að réttlæta hann með ýmsum hætti. Aðeins örfáir hafa sent frá sér yfirlýsingu sem gæti flokkast undir fjórða stig.
Í yfirlýsingu vikunnar mætti við fyrstu sýn greina fimmta stigið. Hann segist gangast við og taka fulla ábyrgð á hegðun sinni, hann segist ekki rengja upplifun þolandans og segist jafnframt vera í bataferli með aðstoð sálfræðings, þerapista og tólfspora samtaka.
Þegar nánar er að gáð, snýst yfirlýsingin fyrst og fremst um að verja eigið mannorð. Hann axlar ekki ábyrgð á hegðuninni heldur skrifar sína eigin útgáfu af sögunni. Hann varpar ábyrgð á þolandann með því að tala um að framkoma beggja aðila hafi verið slæm og umfjöllun um vanlíðan og þráhyggju eru til þess gerðar að réttlæta, eða í það minnsta útskýra hegðun og höfða til hannúðar samfélagsins.
Ekkert bendir til þess að gerandi vikunnar horfist í augu við það mikla valdamisræmi sem hann greinilega nýtti sér í sambandinu – í krafti kyns, aldurs og frægðar. Í yfirlýsingunni má hvergi sjá að aðrar konur gætu hafa orðið fyrir sambærilegri hegðun af hans hálfu, þó fleiri sögur hafi verið sagðar af honum og mögulega eigi enn fleiri eftir að heyrast.
Síðast en ekki síst virðist gerandi vikunnar ekki gera sér neina grein fyrir samhenginu milli framkomu hans við konur og andfemínískra skoðana sem hann hefur (bókstaflega) útvarpað í gegnum árin. Hann lætur eins og þetta samband hafi verið einstakt tímabil á annars tiltölulega flekklausum ferli.
Ég hef margsinnis rætt við karla, bæði gerendur og vini gerenda sem hafa beðið mig um ráð. Á endanum skrifaði ég grein um málið sem á ágætlega við enn þann dag í dag. Ég mæli eindregið með að gerendur lesi hana áður en þeir henda frá sér yfirlýsingum sem gera jafnvel illt verra.
Best væri ef yfirlýsingar framtíðar væru alveg lausar við útskýringar, réttlætingar og söguskoðun. Að þær væru skrifaðar af auðmýkt og raunverulegum vilja til að bæta ráð sitt. Og að gerendur leiti sér alvöru hjálpar og verði í alvöru að betri mönnum. Ég bíð og vona.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl