Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

VESEN VIKUNNAR: KYNJAHLUTFÖLL

Í haust skrifaði ég um rammskökk kynjahlutföll í fastanefndum Alþingis. Ég gagnrýndi þingið fyrir að afsaka sig með vísan til tilnefninga flokkanna og hvatti þau til að taka sér borgarstjórn til fyrirmyndar. En það er af sem áður var.

RÁÐ OG NEFNDIR 2014

Það er samt satt, að á meðan ég var í borgarstjórn ríkti þverpólítísk samstaða um mikilvægi kynjajafnvægis í ráðum og nefndum. Það var oft vesen og náðist ekki alveg alltaf þangað til við duttum niður á þá leið vorið 2014 að leggja fram sameiginlegan lista allra flokka í upphafi kjörtímabils með fulltrúum í hvert fagráð fyrir sig. Það var auðvitað flókið og tilfinningaþrungið, við vorum dauðþreytt eftir kosningabaráttu og meirihlutaviðræður og missátt við niðurstöður hvors tveggja. Ekkert okkar leit þó á það sem afsökun fyrir slælegum vinnubrögðum, enda tryggðum við í sameiningu jöfn kynjahlutföll í öllum fagráðum.

RÁÐ OG NEFNDIR 2022

Fyrsti borgarstjórnarfundur kjörtímabilsins fór fram á þriðjudaginn. Einhverra hluta vegna varð niðurstaða kosninga í ráð og nefndir kolskökk og í ýktu samræmi við kynjaðar staðalmyndir. Ekkert mið var tekið af kynjasjónarmiðum, hvorki innan flokka né á milli flokka. Meirihlutinn tilnefndi t.a.m. 4 konur í skóla- og frístundaráð og 4 karla í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem leiddi til þess að síðarnefnda ráðið er einvörðungu skipað körlum.

FYRIRVARI

Ég geri mér grein fyrir að kynjakvótar leysa ekki kynjamisrétti einir og sér. Þeir tryggja ekki endilega kynjasjónarmið einu sinni. Þeir eru auk þess mikil einföldun, þar sem fleiri breytur en kyn skipta máli til að tryggja að lýðræðið virki sem skyldi. Það þýðir þó ekki að þá beri að hunsa, þvert á móti. Kynjajafnvægi í fagráðum borgarinnar er alger (og lögbundin) lágmarkskrafa. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið fyrirmynd annars stjórnmálafólks í að fylgja lögunum fram til þessa, þrátt fyrir flækjustig og undanþáguheimildir. Því er lítill sómi af þeirri afturför sem nú hefur orðið.

AF HVERJU?

Það er ekki hægt að afsaka svona með þekkingarskorti, hugsunarleysi eða flækjustigi árið 2022. Allir borgarfulltrúar eiga að þekkja ákvæði sveitarstjórnarlaga sem lýtur að kynjajafnvægi í nefndum. Margir borgarfulltrúar hafa setið nógu lengi til að muna eftir vinnunni sem var lögð í að tryggja kynjajafnvægið. Og sömuleiðis eiga nógu margir borgarfulltrúar að muna að þetta flókna viðfangsefni var hægt að leysa á meðan vilji var fyrir hendi.

Ég fæ því ekki betur séð en að það hafi verið meðvituð ákvörðun, bæði hjá meiri- og minnihluta, að hunsa kynjasjónarmið við kosningar í ráð og nefndir. Þessi ákvörðun er til marks um algjört virðingarleysi gagnvart málaflokki jafnréttismála og vekur litlar vonir um að ráðist verði í framsækin verkefni á sviði jafnréttismála á kjörtímabilinu.

ÞRÓUNIN

Kannski var ekki við öðru að búast. Enginn flokkur setti jafnréttismál á oddinn í kosningabaráttunni. Kynbundið ofbeldi, kvíði stúlkna, áhættuhegðun drengja og launamunur kynja skiptu ekki máli sem pólítísk viðfangsefni. Fjölmiðlar spurðu aldrei um þessi mál og flokkarnir settu þau ekki á dagskrá.

Ég reyni yfirleitt að enda hugleiðingarnar mínar á uppbyggilegan hátt. Ég á erfitt með finna þá leið í þetta skiptið. Nema að hvetja okkur öll til að láta skoðun okkar í ljós, mótmæla sinnuleysinu og krefjast þess af stjórnmálafólki að það axli ábyrgð á þeim mikilvægu viðfangsefnum sem þau voru kjörin til að sinna. Ef stjórnmála- og fjölmiðlafólk sinnir ekki sínu verðum við hin að láta í okkur heyra.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: