Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Í vikunni spáði ég því á Twitter að Depp/Heard málið yrði notað af kvenhöturum sem sönnun þess að konur ljúgi og að konur beiti víst ofbeldi. Ég tók jafnframt fram að ég hefði ekkert fylgst með réttarhöldunum. Mörgum fannst ég þess vegna ekki geta tjáð mig með þessum hætti, þetta væri sanngjörn niðurstaða og einhver reyndu að nýta tístið til að styrkja ímyndina um hina ofsafengnu Sóleyju sem gæti ekki staðið með karlkyns þolanda. Nokkuð fyrirsjáanlegt sumsé.
Það eru til undantekningar á öllum reglum og auðvitað eru til einhverjar konur sem beita einhverja karla ofbeldi. En það ekki kerfislægt vandamál sem byggir á ósanngjörnu valdakerfi samfélagsins og þar með ótengt mínu sérsviði. Hvað samfélagið varðar, þá er mikilvægt, nú þegar dómur hefur verið kveðinn upp í Depp/Heard málinu að rifja upp smá um það.
Á Kynjaþingi um síðustu helgi fjölluðu Öfgakonur um meðferð kynferðisbrotamála gegn konum frá örófi alda, m.a. um eftirfarandi:
Rebecca Solnit, sem meðal annars skrifaði bókina Silencing Women, segir Depp/Heard málið vera lýsandi fyrir tilhneigingu samfélagsins til að taka ekki mark á þolendum. Frásagnir þolenda hafi verið stöðvaðar í gegnum tíðina með því að telja þeim trú um að þau séu uppfull af ranghugmyndum, samsæriskenningum, óheiðarleika, illkvittni eða öllu þessu á sama tíma. Og takist ekki að þagga frásagnirnar niður með þeim hætti er vegið að trúverðugleika og persónu þolandans sjálfs, helst á opinberum vettvangi.
Kate Manne hefur skrifað um áhrif undirliggjandi kvenhaturs (e. misogyny) í samfélaginu. Um það hvernig kerfisbundin tortryggni og smættun á reynslu og framlagi kvenna litar ákvarðanir, orð og gjörðir fólks og meðferð mála í öllum stofnunum samfélagsins, þar með talið réttarkerfinu.
Ég ítreka að ég hef ekki fylgst með Depp/Heard. En kynjafræðileg greining á réttarfarssögu á Íslandi og valdakerfinu í heild, ásamt þeirri staðreynd að kvenhatur er enn kraftmeira í Bandaríkjunum en hér, fær mig ekki til að trúa því sissvona að Depp sé þolandi Heard.
Réttarkerfi, hvort heldur sem þau eru á Íslandi eða í Bandaríkjunum byggja enn á reynsluheimi og sýn hvítra karla. Þeim verður ekki breytt nema við greinum þau út frá gagnrýnum kenningum og krefjumst þess að reynsla og þarfir fólks af öllum kynjum verði tekin gild. Þangað til er full ástæða til að efast um allar þær niðurstöður sem þaðan koma.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl