Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Hitt kynið (e. The Second Sex), eftir Simone de Beauvoir, kom út árið 1949. Bókin er hárbeitt greining á samfélagi sem byggir á körlum sem viðmiði og konum sem fráviki.
(Þýðing nafnsins hefði mátt vera betri. Second segir miklu meira en the other. Kynin eru ekki bara tvö og eru alls ekki jafnsettar andstæður, heldur eru mismikils metin).
VIÐMIÐ OG FRÁVIK
Hitt kynið er grundvallarrit sem nýtist innan félags- og kynjafræði enn þann dag í dag. Frá því bókin kom út hafa rannsóknir á stöðu, réttindum og veruleika kvenna, kvára, hinsegin fólks, svarts og brúns fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, feits fólks og annarra jaðarhópa afhjúpað valdakerfi samfélagsins. Við höfum öðlast skilning á því hvernig samfélagið hefur verið miðað að hvítum, íslenskum, cis-het körlum í meðalgóðu formi. Innviðirnir eru miðaðir að þeim, framlag þeirra er verðlagt hærra en annarra og þarfir þeirra eru teknar alvarlegar en annarra.
Þó þessar rannsóknir og alls konar aktívismi hafi skilað vitundarvakningu, bættri réttarstöðu og breytingum í þágu kvenna, kvára og jaðarsetts fólks er valdkerfið seigt og bakslög regluleg. Eitt slíkt virðist vera í gangi núna, þegar Trumpistar leggja undir sig þrjár mikilvægustu valdastofnanir Bandaríkjanna og uppgangur öfgahægris er á fullri ferð á Íslandi.
VIÐ EÐA HITT FÓLKIÐ?
Ég velti því fyrir mér þegar kosningaúrslitin voru ljós í Bandaríkjunum hvort það væri útópía að öllu fólki gæti liðið vel í heiminum. Hvort það væri bara einfaldast að fara til baka í gömlu gildin þar sem meðfæddir eiginleikar (kyn, líkami, stétt o.fl.) ákvörðuðu stöðu og tækifæri fólks.
Ef ég hugsa þá hugsun lengra, þá myndi slíkt fyrirkomulag ekki bitna mikið á mér. Sem hvít, cis-het, rík og menntuð kona með uppkomin börn, tvö heimalönd og komin úr barneign, mun ég ekki líða persónulega fyrir uppgang öfgahægris. Þvert á móti mun samfélagið miðast meira og meira að mér og mínum líkum. Ég mun mögulega bara borga lægri skatta og húsnæðið mitt mun hækka í verði.
Ég geri ráð fyrir að margir kjósenda Trump hafi haft eigin hagsmuni í forgrunni í kjörklefanum. Að þeir hafi trúað því að þeirra líf verði betra með Trumpista við völd án þess að velta fyrir sér hvaða áhrif það myndi hafa á annað fólk. Hitt fólkið.
VIÐ OG HITT FÓLKIÐ
Lýðræði snýst ekki um einstaklinga. Það snýst um samfélag. Það krefst þess að við hugsum um heildina og kjósum það sem er best fyrir okkur öll. Kosningar snúast ekki um að velja það fólk sem ætlar að gera mest fyrir mig. Þær snúast um hvernig við viljum að samfélagið þróist.
Í komandi kosningum munum við Íslendingar kjósa um framtíðarsamfélagið okkar. Þar eru flokkar í boði sem ala á tortryggni, ótta og jafnvel hatri gagnvart hinu fólkinu; konum, kvárum, útlendingum, hinsegin fólki og öðrum jaðarhópum en lofa á sama tíma gulli og grænum skógum til handa viðmiðsins. Þeir höfða til eiginhagsmunahyggju hvítra, íslenskra, cis-het karla í meðalgóðu formi á kostnað öryggis, réttinda og velferðar hins fólksins.
Svo eru í boði flokkar sem höfða til samfélagslegrar ábyrgðar kjósenda. Þeir hafa félagslegt réttlæti, samkennd, samvinnu og inngildingu á sinni stefnuskrá, enda vilja þeir framtíð þar sem allt fólk getur notið sín. Líka hitt fólkið. Ég ætla að kjósa einhvern þeirra, enda snúast kosningarnar um okkur öll en ekki bara mig.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl