Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Ég man þá tíð þegar hugtakið femínisti var notað sem blótsyrði. Það var í kringum aldamót. Líklega tók það við af blótsyrðinu rauðsokka sem var mikið notað á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Á þessum tíma þótti eðlilegt að tala um öfugugga, væl í kellingum og að eitthvað væri ekki fyrir hvítan mann en ógeðslegt að segja píka, tala um blæðingar eða breytingaskeið.
Þá þótti líka í lagi að flytja inn konur frá Austur-Evrópu til að vinna á svokölluðum nektardansstöðum. Rökstuddur grunur var þó um að þessir staðir væru í raun ekkert annað en vændishús.
Í DAG?
Í dag fögnum við árangri Rauðsokkanna. Við erum þakklát fyrir innviðina sem hafa gert konum kleift að taka virkan þátt í opinberum sviðum samfélagsins, yfirráðarétti kvenna yfir eigin líkama, árangri í þágu launajafnréttis og uppbroti staðalmynda. Flest viðurkennum við mikilvægi femínisma í að brjóta upp staðalmyndir og hindranir fyrir konur, kvár og jaðarsett fólk og skapa samfélag þar sem allt fólk nýtur öryggis, réttinda og tækifæra.
Í dag þykir flestu fólki starfsemi nektardansstaða svo ósmekkleg að meira að segja Brynjar Níelsson, sem að jafnaði státar sig af andfemínískum áherslum, þrætir fyrir að hafa unnið í þeirra þágu. Staðreyndirnar tala þó sínu máli, enda er til fjöldi opinberra bréfa sem Brynjar skrifaði og sendi fyrir hönd Bóhem. Öll gengu þau út á að styrkja og tryggja rekstrargrundvöll staðarins.
NÝMÓÐINS GAMALDAGS
Lengi vel hélt ég að Brynjar væri eins konar aukaafurð hjá Sjálfstæðisflokknum. Að honum væri haldið inni til að tryggja fylgi lítils afkima kjósenda sem ekki skildi miklvægi mannréttinda – en þess væri þó gætt að hafa hann í passlega valdalitlu hlutverki. Hann og hans gamaldags hugmyndir voru ekki auglýstar af flokknum, enda í mörgum tilfellum allt of ýktar til að samræmast stefnu hans.
Í dag kveður við nýjan tón. Nú þegar markmið Sjálfstæðisflokksins virðist vera að halda í öfgahægrikjósendur Miðflokksins er þessum gamla karli telft fram af fullum krafti með nýju blótsyrði: Woke.
HIN RAUNVERULEGA ÓGN
Hugtakið „woke“ hefur ekki verið þýtt á íslensku svo ég viti. Það á rætur sínar að rekja til vitundarvakningar um félagslega og pólítíska stöðu svarts fólks í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar en hefur síðan þá verið notað um stöðu fleiri jaðarhópa.
Markmið „wokeisma“ og slagorðið „stay woke“ snýst um að gera forréttindafólk meðvitaðara um forréttindi og hindranir í samfélaginu. Að fólk sem ekki mætir rasisma, fordómum eða mismunun leggi við hlustir, reyni að skilja, virði upplifanir og taki þátt í að afnema kerfisbundnar og menningarbundnar hindranir í samfélaginu.
Ógnin sem hvítum forréttindakörlum stafar af „wokeisma“ er auðvitað ekki raunveruleg. Hún er jafn hlægileg og ógnin sem stafaði af Rauðsokkunum og femínisma. Ógnin sem stafar af uppgangi öfgahægrisins er aftur á móti raunveruleg. Heimdellingum finnst það kannski fyndið, okkur hinum finnst beinlínis óhugnarlegt að sjá hvítan tilkallandi forréttindakarl hæðast með þessum hætti.
Það er líka óhugnarlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn hampa Brynjari og hans andfemínísku áherslum. Með því að gera Brynjar að sínum fulltrúa í stjórn Mannréttindastofnunar og með því að dreifa áróðri Heimdallar gegn mannréttindabaráttu eru þau að marka skýra stefnu gegn mannréttindum fyrir kosningar.
WOKE ER NAUÐSYN
Skilningur og samkennd er forsenda góðs samfélags. Við verðum að greina og skilja þær hindranir sem eru innbyggðar í samfélagið okkar og við verðum að vera tilbúin til að breyta því sem breyta þarf til að við getum öll tekið virkan þátt. Horfumst óhrædd í augu við forréttindin okkar og gerum það sem við getum til að fleiri fái notið þeirra.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl