Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Við (ég sem skrifa og þið sem lesið) erum öll forréttindafólk, jafnvel þótt við kunnum að vera jaðarsett að einhverju leyti. Ég veit að það getur verið svolítið óþægilegt að vera minnt á eigin forréttindi, enda höfum við ekkert gert til að öðlast þau. Þessi óþægindatilfinning er skiljanleg, en við þurfum að reyna að hrista hana af okkur. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir forréttindin okkar, en við verðum að vera meðvituð um þau og umgangast þau af ábyrgð.
FORRÉTTINDI OG MANNRÉTTINDI
Við veltum sjaldan fyrir okkur forréttindunum sem fylgja því að vera ekki jaðarsett. Ófatlaða ég þarf aldrei að athuga með aðgengi að byggingum eða túlkaþjónustu, hvíta ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af rasisma og gagnkynhneigða ég þarf ég ekki að velta fyrir mér hvort ég fái asnalegar spurningar/athugasemdir ef ég tek maka minn með á opinbera viðburði. Þetta eru bara örfá dæmi um forréttindin sem ég nýt.
Forréttindakonan ég veit samt talsvert um hvernig það er að búa í samfélagi kvenhaturs*. Í 50 ár hef ég búið í samfélagi sem hefur með beinum og óbeinum hætti sagt mér að ég sé of óþekk, of róttæk, of femínísk og nú það nýjasta, of „woke“. Ég hef verið skömmuð, hædd og niðurlægð fyrir að vera ekki nógu þæg, ekki nógu prúð, ekki nógu kvenleg og ekki nógu þóknanleg feðraveldinu. Og þrátt fyrir að vera alin upp við að passa mig á að verða ekki fyrir ofbeldi, hef ég orðið fyrir meira ofbeldi en ætti að vera til. Samt hef ég orðið fyrir miklu minna ofbeldi en margar aðrar konur.
FORRÉTTINDAFIRRING**
Hugtakið forréttindafirring á við þegar forréttindafólk túlkar veruleikann út frá eigin forréttindum. Þegar það velur að hugsa ekki um aðstæður, hindranir eða veruleika jaðarsetts fólks, hvort sem það á við um að hundsa frásagnir og ábendingar einstaklinga eða hundsun á stofananbundinni mismunun og kerfislægum hindrunum. Forréttindafirrt fólk á það til að haga sér með skaðlegum hætti, s.s. að segja eða skrifa ljóta hluti sem viðhalda eða auka á fordóma, tortryggni, andúð eða hreinlega hatur á jaðarsettu fólki. Enn ýktari birtingarmynd er svo þegar það heldur svo áfram með því að gera lítið úr skaðanum sem það sjálft hefur valdið.
FORRÉTTINDAFIRRTUR ÞÓRÐUR SNÆR
Í vikunni gekkst Þórður Snær Júlíusson við ljótum skrifum á bloggsíðu fyrir 20 árum. Skrifin voru þess eðlis að Kristrúnu Frostadóttur leið eins og hún hefði verið kýld í magann þegar hún las þau. Hjá mér rifjaðist upp óttinn og vanlíðanin frá þessum tíma, þegar níðskrif um mig voru daglegt brauð. Þegar ég var alla daga hrædd um að nafnlausir níðskrifarar eltu mig uppi í raunheimum. Á þessari síðu er líklega eitthvað að finna um mig, en ég hef hreinlega ekki haft kjark til að tékka á því.
Það er því eitt að Þórður Snær hafi í forréttindafirringu sinni skrifað þessar færslur. Hitt er hvernig hann biðst afsökunar á þeim í dag. Á meðan ég, Kristrún og fjölmargar aðrar konur upplifa mikla vanlíðan við upprifjun skrifanna, afgreiðir hann þau sem heimsklulegt bernskubrek sem hann skammist sín svo sem fyrir, en beri ekki að taka alvarlega. Þetta viðbragð er til marks um algera forréttindafirringu gagnvart veruleika kvenna í samfélagi kvenhaturs og sinnuleysi gagnvart andrúmsloftinu sem hann tók þátt í að viðhalda á þessum tíma og olli fjölda kvenna skaða til lengri tíma.
Skrif viðhalda virðingarleysi gagnvart konum og skapa ótta og vanlíðan meðal þeirra er ekki hægt að afskrifa bara sem heimskulegt bernskubrek.
VERUM AUÐMJÚK
Þórður Snær er engan veginn eini forréttindafirrti frambjóðandinn fyrir þessar kosningar. Þá má finna í öllum flokkum, þó sér í lagi meða hægri öfgaflokkanna sem byggja málflutning sinn á tortryggni og andúð gagnvart jaðarhópunum sem um ræðir. Allir frambjóðendur geta lært, breyst og batnað ef þeir kæra sig um. Og það getum við hin líka.
Verum auðmjúk gagnvart mistökum okkar, hvort sem þau eru gömul eða ný. Horfumst í augu við eigin breyskleika, viðurkennum skaðann sem við völdum þegar svo ber undir, lærum af því, breytum og verðum að skárra fólki. Þannig getum við lagt okkar af mörkum við að gera heiminn örlítið betri.
Bestu kveðjur,
Sóley
*Kvenhatur (e. misogyny) sem skv. kenningum Kate Manne snýst ekki um skoðanir eða gjörðir einstakra karla heldur um hið kerfislæga fyrirbæri sem hefur mótandi áhrif á okkur öll og hamlandi áhrif á jaðarsett fólk.
**Forréttindafirring hefur verið kölluð forréttindablinda en á umliðnum árum höfum við lært að það er ekki viðeigandi að nota hugtök yfir fatlanir í niðrandi yfirfærðri merkingu. Auk þess er forréttindafirring valkvæð en blinda ekki.
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl