Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: NÝR FORSETI
Ég var í beinni útsendingu og beið eftir fyrstu tölum. Mér var illt í fótunum en leið vel í hjartanu. Síðustu mánuðir höfðu verið eitt samfellt ævintýri en á sama tíma tekið mjög á. Sama hvað kæmi upp úr kjörkössunum vissi ég að ég gæti verið stolt af ferðalaginu. Ég horfði á keppinauta mína, Guðna Th. Jóhannesson, Andra Snæ Magnason og Davíð Oddsson. Þeir voru á flatbotna skóm og litu ekkert endilega út fyrir að hafa þurft að finna sér ný jakkaföt fyrir kvöldið. Svo var ýmislegt annað og veigameira sem mér hafði sýnst eilítið auðveldara fyrir þá þrjá.
Svona hefst bókin Hugrekki til að hafa áhrif eftir Höllu Tómasdóttur, nýkjörinn forseta Íslands. Þarna lýsir hún kosningakvöldi fyrir átta árum og síðar í bókinni fer hún yfir það hvernig karlarnir töluðu oftar og lengur en hún í fjölmiðlum og fengu fleiri spurningar en hún í viðtalsþáttum, nema um það sem viðkom fjölskylduábyrgð. Hún segir í bókinni að hún kvarti svo sem ekki fyrir sitt leyti, en það geri hana brjálaða að hugsa til þess að fleiri konur muni lenda í því sama.
KONUR Í HEIMI KARLA
Ég tengi sterkt við lýsingar Höllu á veruleika kvenna í karllægum heimi. Hvernig hún var hvött til að tala ekki um metnað sinn til að valdefla konur, hvernig konum er hengt fyrir að gera athugasemdir við ósanngirni og útilokun og hvernig kröfur um útlit, fas og framkomu eru strangari og fyrirferðarmeiri en gagnvart körlum. Ég hef ítrekað verið beðin um að draga úr femínískum áherslum mínum og sannarlega verið hengt fyrir að benda á óþægilega hluti. Að öðru leyti hef ég fengið fleiri athugasemdir um útlit, fas og framkomu í fjölmiðlum en um efnislegt innihald þess sem ég hef sagt.
Ég kvarta ekki yfir þessu fyrir mitt leyti lengur, en það gerir mig jafn brjálaða og Höllu að vita að fleiri konur eiga eftir að lenda í því sama. Krafan um að konur aðlagist ríkjandi kerfi og karllægum áherslum á sama tíma og þær haldi í kvenlægt útlit, fas og framkomu er algerlega óþolandi.
AÐ BREYTA HEIMINUM
Ég les aldrei sjálfshjálparbækur, aðallega vegna þess að mér finnst einstaklingshyggjan sem felst í því að ég eigi stöðugt að vera að breyta mér skyggja á mikilvægi þess að breyta samfélaginu. Ég hlustaði samt á bókina hennar Höllu af því mig langaði að kynnast henni betur.
Ég fékk sannarlega að kynnast Höllu. Hún segir af æðruleysi frá sjálfri sér, jafnt frá mótlæti og erfiðleikum sem stuðningi og forréttidum. Hún lýsir eigin styrk- og veikleikum og sinni sýn á samfélagið og heiminn. Ég lærði líka helling af bókinni. Meðal annars að það er kannski bara bölvaður hroki að lesa ekki sjálfshjálparbækur. Það að ég finni leiðir til að bæta mig dregur ekkert úr þörf minni til að hafa áhrif á samfélagið. Að því sögðu, þá er bókin engin venjuleg sjálfshjálparbók. Í henni má finna beitta samfélagsrýni sem er vel til þess fallin að breyta heiminum, ekki síður en lesendum.
TIL HAMINGJU HALLA!
Ég hlakka til að fylgjast með Höllu sem forseta. Ég vona að hún haldi í hugrekkið til að benda á það sem betur má fara í ósanngjörnu valdakerfi heimsins og ég vona að hún haldi áfram að beita óhefðbundum leiðum til að leiða saman fólk og sjónarmið til að finna lausnir sem laga það sem þarf.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl