Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: SJÓNARHORN
Ég hef áður skrifað um sjónarhorn, hvernig það er háð okkar eigin stöðu og reynslu og hefur áhrif á hvernig við metum, virðum og högum okkur gagnvart öðru fólki. -Að það er næstum ómögulegt að setja okkur í spor okkur jaðarsettara fólks þar sem við höfum ekki reynslu til að skilja.
En það skiptir líka máli hvaða sjónarhorni er haldið að okkur. Út frá hvaða sjónarhóli sögur eru sagðar og mál eru kynnt. Í skáldsögum og bíómyndum er auðvelt að skapa aðstæður þar sem lesandinn heldur með glæpafólki, jafnvel verstu illmennum. Í dýralífsþáttum höldum við með dýrategundinni sem fjallað er um, við viljum ýmist að ljónynjan veiði feitan sebrahest til að fæða hvolpana sína eða að sebrahesturinn sleppi undan grimma ljóninu. Allt eftir því hvernig sagan er sögð.
Herir og hryðjuverkasamtök
Ég var að ljúka við að hlusta á The Nightingales eftir Kristin Hannah. Frábær bók um franskar systur sem voru að reyna að lifa af í seinni heimstyrjöldinni, á tímum þar sem franska andspyrnuhreyfingin var skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Af nasistum sem þá voru ráðandi afl í landinu. Í dag eru Hamas skilgreind sem hryðjuverkasamtök á meðan Ísraelsher er viðurkennd stofnun. Þann 9. ágúst hafði Ísraelsher drepið 39.677 manneskjur frá Palestínu á meðan Hamas hafði drepið 1.478 Ísraela. Ég fordæmi að sjálfsögðu hvert og eitt þessara morða, en mögulega verður sjónarhorn framtíðarinnar annað en við höfum í dag.
Svart og hvítt
Svart og brúnt fólk er mun líklegra en hvítt til að vera stoppað og/eða handtekið af lögreglu í hinum vestræna heimi. Kynþáttamörkun (e. racial profiling) byggir að talsverðu leyti á því að sjónum er beint að svörtum og brúnum glæpamönnum í mun ríkarimæli en hvítum í fréttum og dægurefni. Birtingarmyndir svarts og brúns fólks í fjölmiðlum hafa þannig áhrif á (ó)meðvitaða hlutdrægni lögreglu og réttarkerfis með áðurnefndum afleiðingum fyrir fólk.
Gerendur og brotaþolar
Umfjöllun um kynbundið ofbeldi, sem er oft full hannúðar og þolendaskömmunar hefur áhrif á viðhorf okkar og vinnu lögreglu- og réttarkerfis. Ítrekaðar fréttir af konum sem kæra karla (í stað gerenda sem brjóta á konum), viðtöl við karla sem telja sig órétti beittir af dómstól götunnar og umfjöllun um tálmunarmæður hafa áhrif á hugsunarhátt okkar og afstöðu og eru ekki til þess fallnar að uppræta kynbunið ofbeldi í samfélaginu.
Verum gagnrýnin
Heimurinn sýnir okkur ekki jafn fjölbreytt sjónarhorn á valdakerfi heimsins og dýralífsþættir. Þess vegna er mikilvægt að við látum ekki samfélagið skilgreina sjónarhornið okkar. Verum gagnrýnin á skilgreiningar, viðhorf og viðfangsefni og setjum þau í samhengi við valdakerfi heimsins. Er sanngjarnt að við látum ráðandi öfl í heiminum skilgreina heri og hryðjuverkasamtök, eru birtingarmyndir svarts og brúns fólks raunhæfar og er umfjöllun um kynbundið ofbeldi sanngjörn? Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum, en holl og góð íhugun fyrir okkur öll.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl