Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: HANDTÖKUR SUMARSINS

Drífa vinkona mín fékk þessa mynd senda í vikunni frá konu sem ofbauð að horfa á þrjá karla gera grín að ofbeldi amerískra fótboltakarla gegn konum. Ég hef ekki séð þáttinn, en það eitt að þrír karlar sem sérhæfa sig í að fjalla um amerískan fótbolta skuli telja eðlilegt að spjalla af léttúð um tjáknaskreytt yfirlit yfir ofbeldisverknaði er efni í hugleiðingu.


MÁ EKKERT LENGUR?


Ég hef áður fjallað um haturspíramídann, en hann sýnir með myndrænum hætti hvernig mismunun er uppbyggð, hvaðan hún kemur og til hvers hún getur leitt. Amerísku karlarnir voru handteknir á grundvelli laga sem ætlað er að taka á efstu lögunum. Það er bannað að miða byssu á höfuð barnsmóður sinnar, það er bannað að brjótast inn til fyrrum kærustu og það er bannað að reyna að kyrkja unnustu sína.


Við erum almennt sammála um að mismunun og ofbeldi eigi aldrei að eiga sér stað. Það hefur ekki alltaf verið þannig og það er ekki þannig um allan heim. Bann við mismunun og ofbeldi er til komið vegna þrotlausrar baráttu jaðarhópa fyrir öryggi, virðingu og jafnrétti sem hefur kostað mannslíf, geðheilsu og æru margra þeirra sem hana háðu.

EKKI ÞETTA HELDUR?


Það er ekki bannað að búa til tjáknaskreyttan lista yfir ofbeldisverknaði, né heldur að tala af léttúð um hann við félagana á sama tíma og úrslit fótboltaleikja. Það er ekki formleg mismunun, heldur óviðeigandi hegðun sem hefur skaðlegar afleiðingar.


Afleiðingarnar eru skaðlegar fyrir brotaþola meðal áhorfenda sem geta triggerast og upplifað að léttúðin geri lítið úr vanlíðan og reynslu þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu (fyrrverandi) maka. Afleiðingarnar eru ekki síður skaðlegar fyrir samfélagið, enda dregur það úr alvarleika kynbundins ofbeldis í hugum fólks að hlæja að því í íþróttaþáttum.


Það að eitthvað sé ekki bannað, þýðir ekki að það sé æskilegt, gott eða uppbyggilegt.


ÁBYRG HEGÐUN



Óformleg mismunun er óáþreifanleg fyrir þau sem ekki verða fyrir henni. Hvítir, íslenskir, gagnkynhneigðir og ófatlaðir karlar eiga erfitt með að skilja vanlíðanina sem felst í því að vera jaðarsett í samfélagi kynbundins ofbeldis. Þeir geta varla ímyndað sér hversdagslegu áhrifin; hrollinn og gæsahúðina, ráðstafanirnar, hnútinn í maganum og húmorsleysið gagnvart jaðarsetjandi bröndurum.


Forréttindum fylgir ábyrgð. Forréttindafólk þarf að leggja sig fram um að læra um veruleika jaðarsetts fólks, skilja hvað í honum felst og hvernig þeirra eigin hegðun getur haft áhrif til góðs og ills. Það er mikilvægt að skilja áhrif ómeðvitaðrar hlutdrægni, hvernig hún getur leitt til óæskilegrar hegðunar og haft skaðlegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Við þurfum öll að leggja okkur fram um þetta, en sér í lagi þau sem mest forréttindin hafa.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: