Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÚTLENSK ÓMENNING

Við hjónin fórum til Mallorca í sumarfríinu. Höfðum keypt flug og hótel sem leit ágætlega út og sáum fyrir okkur tíu daga rólegheit. Við lentum seint um kvöld, röltum aðeins um og sáum að við vorum í hringiðu ansi fjörugs næturlífs. Daginn eftir lágum við á ströndinni þar til næturlífið hófst, uppúr hádegi. Þann dag áttuðum við okkur á því að við vorum á einum versta stað eyjarinnar, í hverfi þar sem þýsk ungmenni safnast saman til að djamma.


Við vorum rétt hjá svokölluðu Schinkenstraße sem hverfist í kringum tvö risastór diskótek. Á svæðinu voru óteljandi nektardansstaðir og óvenju margar tattústofur sem allar auglýstu margar gerðir af tippa- og píkutattúum og voru aðallega opnar að næturlagi. Matvöruverslanir seldu hvorki brauð né ávexti, en buðu upp á bjórkassa í stöflum, fatnað með klámfengnum skilaboðum og fjölbreytt úrval af kynfæralöguðum minjagripum.


Á þriðja degi leigðum við okkur bíl og notuðum hann til að vera fjarri Schinkenstraße það sem eftir var af fríinu.


HVAÐ GERIST ÞARNA?


Það er vel hægt að hlæja að þessari sögu, en hún er umhugsunarverð engu að síður. Einhvern morguninn, þegar við vorum að aka af stað, veltum við fyrir okkur hvort eitthvert ungmennið hefði vaknað upp með tippatattú og í framhaldinu hvort eitthvað verra hefði mögulega gerst þá um nóttina.


Ég veit að ofbeldi er framið úti um allt, en menningin í Schinkenstraße skapar þó kjöraðstæður. Þar er löggæsla lítið sýnileg, upplýsingar um einhvers konar stuðning eða þjónustu við brotaþola hvergi að finna og í stað áherslna á virðingu, mörk og upplýst samþykki er alið á óæskilegustu birtingarmyndum karlmennsku og kvenleika í öllu sem fyrir ber. Þegar þúsundir óþroskaðra unglinga koma þar saman til að kanna heiminn og eigin mörk eru líkur á að mörk annarra séu ekki virt.


LANGT Í BURTU?


Schinkenstraße er vissulega ýktur og hræðilegur menningarafkimi, en þeir eru víðar. Kannski ekki jafn ýktir en samt þurfum við að hjálpast að við að uppræta þá og koma í veg fyrir að nýir skapist.


Sem betur fer höfum við lært margt á Íslandi, ekki síst fyrir tilstuðlan femínískra hagsmunasamtaka og allra samfélagsmiðlabyltinganna sem konur og brotaþolar hafa staðið að á undanförnum áratugum. Við vitum að kynbundið ofbeldi verður ekki til í tómarúmi og það snýst sjaldnast um skrímsli sem stökkva fram úr skuggasundum.


Kynbundið ofbeldi þrífst í menningu þar sem mörk eru afmáð með því að leyfa óæskilegri hegðun að eiga sér stað. Þar sem hlegið er að niðurlægjandi og klúrum bröndurum, þar sem alið er á ákveðni og áhættusækni umfram auðmýkt og samkennd. 


EKKERT SCHINKENSTRAßE HÉR TAKK


Þó við séum á réttri leið, er enn langt í land. Við þurfum öll að vanda okkur við að brjóta upp óæskilegar staðalmyndir kynjanna og stöðva óæskilega hegðun. Sem einstaklingar getum við haft áhrif á menningarafkima í vinahópum, skólastofum, búningsklefum, nemendafélögum, saumaklúbbum og/eða bumbubolta svo einhver dæmi séu nefnd. Með því að tryggja jákvæð og uppbyggileg samskipti í öllum okkar hópum, getum við haft jákvæð áhrif ásamfélagið í heild, spornað gegn misrétti og kynbundnu ofbeldi.


Bestu kveðjur,

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: