Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: SKAUTUN SEM RÉTTLÆTING HÆGRI ÖFGA

Ég horfði á kappræður forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum í vikunni og hef eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þær síðan. Mig langar svo að skilja af hverju það þykir allt í einu eðlilegt að velja á milli glæpamanns sem eys samhengislausum rasisma og kvenfyrirlitningu út í andrúmsloftið og stjórnmálakonu sem er með vel ígrundaða stefnuskrá um hvernig hún hyggst þjóna samfélaginu.


KAPPRÆÐURNAR


Án þess að endurtaka allt sem Trump sagði í kappræðunum má rifja upp að hann sagði að innflytjendur væru glæpamenn, að þeir ætu gæludýr og að þeir væru að hafa störf af heiðvirðu fólki. Hann talaði af fullkomnu virðingarleysi um og við Harris og fullyrti að stefna demókrata væri ömurleg. Obamacare væri til að mynda allt of dýrt og vont fyrir íbúa, þó hann viðurkenndi að hann væri ekki með neitt betra sjálfur. Hans framlag í kappræðunum var að fordæma, niðurlægja og skapa ótta og andúð gagnvart jaðarsettu fólki.


Harris hagaði sér aftur á móti eins og almennileg stjórnmálakona. Varði tíma sínum að mestu leyti í að kynna og rökstyðja stefnumál sín. Allt of mikill tími og orka fór þó í að bregðast við og verjast árásum Trump.


Kappræðurnar hefðu getað verið málefnaleg skoðanaskipti um stefnumál demókrata og rebúplíkana og hvernig frambjóðendur sæju samfélagið þróast. Í staðinn horfðum við á brjálaðan oflátung ala á hatri og ótta og vandaða stjórnmálakonu reyna að bregðast við með eins málaefnalegum hætti og hægt var.


SKAUTUN?


Ég neita að afgreiða þetta sem skautun. Að það hafi átt sér stað gliðnun í samfélaginu vegna tveggja jafnvígra öfgahópa. Það myndi fela í sér að öfgahægrið beitti sér gegn réttindum (og jafnvel fyrir afnámi réttinda) kvenna, innflytjenda, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa – og svo væri eitthvað öfgavinstri. Og í hverju fælust öfgarnar þar? Að beita sér fyrir réttindum (og jafnvel standa vörð um réttindi) þessara hópa? Er það öfgafullt?


Við sem búum á Íslandi vitum mætavel að stefna Demókrata er að jafnaði hægrisinnaðari en stefna Sjálfstæðisflokkins. Hún er alls ekki róttæk vinstristefna, hvað þá öfgafull. Að halda því fram að Kamala Harris sé öfgavinstrisinni er því alger reginvitleysa.


ÓSANNGJÖRN RÉTTLÆTING


Uppgangur öfgahægris á Íslandi tekur á sig ótal myndir. Ein sú vinsælasta er að segjast spyrja spurninga eða opna umræðu, oftar en ekki um réttindi sem kostaði jaðarsett fólk blóð svita og tár til að ná fram. Íslensk stjórnmál hafa á færst hratt til hægri á undanförnum árum, þar sem Miðflokkurinn togar Sjálfstæðisflokkinn til hægri sem togar Samfylkinguna til hægri án þess að Vinstri græn haldi í spottann á hinum endanum.


Hið meinta öfgavinstri snýst m.a. um að standa vörð um yfirráðarétt kvenna yfir eigin líkama, um að viðurkenna og virða stöðu og réttindi trans fólks og að axla ábyrgð og mæta þörfum fólks á flótta í stríðshrjáðum heimi. Það eru engar öfgar, heldur gamalgróin félagshyggja sem hefur engum breytingum tekið.


Ég skil vel að fólki finnist flókið að skilja og aðlagast breyttum áherslum í kjölfar vitundarvakningar um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Það er flókið. En það er ekki öfgafullt. Það er eðlileg framþróun samfélags sem einu sinni lokaði konur inni á heimilum, fatlað fólk á stofnunum, hinsegin fólk í skápum og útlendinga í útlöndum.


Skautun er bara bullhugtak, fundið upp til að gera allt almennilegt fólk samsekt fyrir ómálefnalegri umræðu öfgahægrisins.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: