Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEÐING VIKUNNAR: KVENNASTJÓRN Á KVENNAÁRI

Það verður óreiðukenndur pistill í dag, þar sem ég er eiginlega í fríi og ætlaði ekki að skrifa neitt. Stenst samt ekki mátið, nú þegar Halla Tómasdóttir hefur veitt Kristrúnu Frostadóttur stjórnarmyndunarumboð sem nýtir það til að ræða við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland. Það er einkar frelsandi að vera bara alveg laus við karla í þessu ferli, að ekki sé talað um karlana sem hafa stjórnað þessu landi allt of lengi.


ALLAR ÞESSAR TILFINNINGAR


Ég hef sjaldan fundið fyrir jafn fjölbreyttum tilfinningum vegna kosningaúrslita. Ég er glöð yfir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hlotið sína verstu útreið í sögunni og að Miðflokkurinn hafi ekki fengið eins mikið og kannanir sýndu á tímabili. Ég er líka glöð yfir góðu gengi Samfylkingarinnar sem er góður kostur, þó hún sé kannski ekki alveg nógu róttæk fyrir mig. Ég er smá sorgmædd yfir litlu fylgi Framsóknarflokksins og jafnframt hissa á að ég beri tilfinningar yfir höfuð til þess flokks. Ég skil ekki af hverju Flokkur fólksins fékk svona mikið fylgi en ég skil mjög vel að Viðreisn hafi aukið sitt fylgi. Þar á bæ var háð ótrúlega falleg, jákvæð og aðlaðandi kosningabarátta. Ef þau væru ekki svona hægrisinnuð hefði ég sannarlega íhugað að kjósa þau.


Mér er fyrirmunað að skilja af hverju Píratar duttu af þingi, þetta harðduglega fólk sem stóð mikilvæga vakt gegn ríkissjórninni í umhverfis- og mannréttindamálum. Mér þykir leiðinlegt að Sósíalistar hafi ekki náð inn, öflugur hópur með mikilvæga stefnu. Svo er auðvitað sorglegt að minn gamli flokkur VG skuli hafa þurrkast út, þó það sé skiljanlegt og eiginlega bara líkn. Hreyfingin hafði verið að tærast upp innanfrá í mjög mörg ár og hafði lamandi áhrif út í grasrótarhreyfingar, hagsmunahópa og samfélagið allt.


Nú er ljóst að næsta ríkisstjórn fær ekkert aðhald frá vinstri á Alþingi. Þá verðum við, fólkið í landinu, að gegna því lýðræðislega hlutverki. Það getum við gert sem einstaklingar, en líka í gegnum formlega og óformlega hópa um afmörkuð málefni hverju sinni.


KVENNASTJÓRN


Ég vona svo innilega að Kristrún, Þorgerður og Inga myndi ríkisstjórn. Engin þeirra er fullkomin og mér finnst allskonar vitleysa leynast í stefnuskrám allra þessara flokka. En ég vil samt svo miklu frekar að þrjár breyskar konur leiði ríkisstjórn heldur en einhverjir meðalkarlar. Ekki bara hafa þær fyrir löngu sýnt fram á hæfni sína og getu til að stjórna þessu landi, heldur ber fas þeirra og framkoma merki þess að þær séu líka guðslifandifegnar að vera lausar við karlana. Þær tala saman með öðrum hætti, þær brosa með öðrum hætti, þær eru afslappaðari og sýna meiri hlýju og væntumþykju. Ekki bara hverri annarri, heldur líka þjóðinni.


Þessi kvennastjórn verður vonandi upptaktur að kvennaárinu 2025, þegar 50 ár verða liðin frá fyrsta kvennaverkefallinu, þann 24. október. Hún verður ekki fullkomin, ekki frekar en neitt annað í heiminum. En hún verður það besta sem gæti gerst. Áfram konur!


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: