Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


KOSNINGAR VIKUNNAR: EKKI Á KOSTNAÐ MANNRÉTTINDA

Ég held mér hafi aldrei þótt nægileg áhersla á jafnrétti og mannréttindi í stjórnmálum. Ég hef ítrekað gagnrýnt flokka og fjölmiðla fyrir gamaldags karllægar áherslur í aðdraganda kosninga. Í gegnum tíðina hafa allir flokkar gætt þess að hafa eitthvað skrifað um jafnrétti til að geta svarað ef einhver spyr, en enginn flokkur hefur haft frumkvæði af að tala um þessi mál.


ÞAÐ ER AF SEM ÁÐUR VAR


Fyrir þessar kosningar hafa meiri umræður verið um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu en nokkru sinni. Það kemur þó ekki til af góðu, heldur af því að ákveðnir flokkar taka nú skýrari og ýktari afstöðu gegn auknu öryggi, tækifærum, þátttöku og mannréttindum fólks en nokkru sinni.


Þessar breytingar eru rannsóknarefni í sjálfu sér. Stundum er því haldið fram að öfgahægrið sé andsvar við auknum réttindum kvenna, kvára og jaðarsetts fólks en ég er ekki viss. Það er allt eins líklegt að uppgangur öfgahægris sé til kominn vegna þess að við höfum ekki rætt nægilega opinskátt, ítarlega og oft um mikilvægi jafnréttis, öryggis og mannréttinda.


Á MÓTI MANNRÉTTINDUM?


Hver sem ástæðan kann að vera, þá eru skilin mjög skýr á milli flokka sem tala með eða á móti réttindum jaðarsetts fólks. Fulltrúar Miðflokks, Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað talað gegn auknum mannréttindum, t.d. réttindum kvenna til þungunarrofs, réttindum fólks í leit að alþjóðlegri vernd, tilverurétti trans og intersex fólks og verið andvíg stefnumótun í þágu inngildandi samfélags. Þeir hafa gert lítið úr skaðsemi hatursorðræðu, útilokunar og misréttis, þeir ekki tekið afstöðu gegn þjóðarmorði Ísraels á Gaza og svona gæti ég lengi talið.


Þessar ýktu andmannréttindaáherslur hafa sem betur fer kallað fram svör frá öðrum flokkum. Þau svör hafa svo sem verið fjölbreytt og stefnurnar mistrúverðugar í málaflokknum en aðrir flokkar tala ekki gegn jafnrétti, öryggi og mannréttindum.


ALLT NEMA ÞAÐ


Ég geri mér grein fyrir að margt skiptir máli þegar val á framboði er annars vegar. Það þarf að ná niður verðbólgu, tryggja aukið framboð húsnæðis, efla fjölbreyttar samgöngur og styrkja stoðir heilbrigðis- og menntakerfis og gera fjölmargt annað. Flokkarnir hafa kynnt ólíkar leiðir sem þeir vilja fara í þessum efnum og það er ykkar að velja þá sem ykkur hugnast best.


Í því samhengi vil ég þó biðja ykkur um að hafa mannréttindi í huga. Hvort sem þið trúið á einkarekstur eða opinberan, inngöngu í Evrópusambandið eða ekki, þá gerið það fyrir mig að velja samt flokka sem gera ekki lítið úr veruleika, réttindum og stöðu kvenna, kvára og jaðarsetts fólks, hvað þá að lofa einhverju á kostnað þessara hópa.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: