Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: STRÍÐ OG FRIÐUR

Þann 8. mars verður alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti haldinn í skugga hörmunganna í Úkraínu. Stríðs sem okkur er sagt að snúist um flókna pólítík en snýst samt í grunninn bara um það sem öll stríð snúast um; yfirráð og völd.

Átakasaga heimsins er saga valdagræðgi. Saga einsleitra hópa forréttindakarla sem telja sig eiga tilkall til þess sem þeim sýnist og kunna ekki friðsamlegar leiðir til að leysa úr ágreiningi.

KONUR TIL ÁHRIFA

Að undanförnu hefur talsverð gagnrýni átt sér stað á of mikla áherslu femínista á kynjahlutföll í áhrifastöðum. Með aukinni þekkingu á jaðarsetningu og samþættingu (intersectionality) hafa sjónir beinst í auknum mæli að daglegu striti jaðarsettra kvenna frá degi til dags. Gagnrýnin er réttmæt og áherslurnar mikilvægar. Margar konur eru bara allt of uppteknar við að ná endum saman eða lifa af til að hafa áhyggjur af því hversu margar konur stýri fyrirtækjum í kauphöllinni.

Á móti kemur sú staðreynd að valdakarlar hafa í gegnum tíðina tekið lítið mið af stöðu kvenna og jaðarsettra hópa og þeir eru enn ólíklegri en konur til að hafa jaðarsetningu og samþættingu að leiðarljósi í ákvarðanatöku. Við höfum auðvitað enga tryggingu fyrir að konur geri það í öllum tilfellum. Rannsóknir benda þó til þess að ákvarðanir sem byggja á fjölbreyttum sjónarmiðum fólks með ólíkan bakgrunn séu líklegri til árangurs. Þeim mun fjölbreyttari sem valdhafar eru, þeim mun líklegra er að ákvarðanir þeirra takið mið af stöðu jaðarsetts fólks.

ÁSTANDIÐ

Við vitum að stríð bitnar verst á jaðarsettu fólki. Kynbundnu ofbeldi er markvisst beitt í hernaði, skólar, dagvistun, barnavernd og velferðarkerfi laskast eða leggjast af. Heimilisofbeldi eykst og ábyrgðin á að endurreisa brotna karlmennsku fellur á herðar kvenna. Flótti er aðeins í boði fyrir þau sem hafa fjárhagslega, félagslega og/eða líkamlega burði. Eftir situr jaðarsettasta fólk samfélagsins og verður fyrir eitruðustu birtingarmyndum karlmennsku sem um getur.

LAUSNIN

Ég veit ekki hvernig á að leysa Úkraínustríðið. En ég tel mig vita hvernig við getum komið í veg fyrir stríð framtíðarinnar. Það gerum við með því að afbyggja staðalmyndir um karlmennsku og kvenleika og með því að vera meðvituð um áhrif okkar eigin ómeðvituðu hlutdrægni á hegðun okkar og gildismat. Með því að skoða okkur sjálf, fræðast um forréttindin okkar og þær hindranir sem annað fólk mætir. Með því að draga úr áherslu á keppnisskap, áræðni, átök og hörku og auka áherslu á auðmýkt, sjálfsskoðun og friðsamlegar lausnir á daglegum viðfangsefnum. Með því að kjósa fjölbreytt fólk til áhrifa. Sama hvort hvort við erum ráðgjafar, mannauðsfólk, forstjórar eða forsetar.

Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: