Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

KYNJAHALLI VIKUNNAR: NÝSKÖPUN

Sprotasjóðir fjárfestu í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir rúma tvo milljarða króna á síðasta ári. Fjárfestingarnar fóru í 22 karlateymi, 3 blönduð teymi og 1 kvennateymi. Í góðri grein á Kjarnanum má lesa um hvernig Íris Ólafsdóttir og Fida Abu Libdeh hrekja helstu mýtur um að konur þurfi bara að vera duglegri (KÞBAVD) í þessum efnum.

ÞURFA KONUR AÐ VERA DUGLEGRI?

Samkvæmt grein Írisar og Fidu er ekki hægt að skýra kynjahallann með menntunarvali kvenna, ekki með því að konur sæki ekki um styrki og ekki með því að konur kunni ekki að reka fyrirtæki.

Konur voru 54% útskrifaðra úr meistaranámi á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ árið 2019, auk þess sem nýsköpun sprettur úr öllum greinum og konur hafa verið í meirihluta útskrifaðra úr háskólum um áratugaskeið. Af umsóknum í Tækniþróunarsjóð voru 32% með kvenkyns verkefnastjóra (fjárfestingar ættu miðað við það að vera tífalt algengari en þær voru 2021) og rannsóknir sýna að nýsköpunarfyrirtæki sem leidd eru af konum ná betri árangri og hafa skýrari fókus á umhverfismál og samfélagsábyrgð en fyrirtæki sem leidd eru af körlum.


Eru konur ekki bara andsk... nógu duglegar?

FRAMBÆRILEIKI KARLA

Ég hef áður skrifað um efni þessu tengt, enda eftirminnilegt þegar fjárfestar hoppuðu á hugmynd karla um að framleiða sérstaka túrhanska fyrir konur. Seinna kom reyndar í ljós að þörfin fyrir túrhanska var engin, hugmyndafræðin byggði á gamaldags blæðingaskömm, stuðlaði að blæðingafátækt og hafði afar neikvæð áhrif á umhverfið. En þetta voru hressir gaurar með sjálfstraust og fjárfestirinn fílaði þá. Alveg án þess að spá í málið.

Þar liggur vandinn. Fjárfestingar sprotasjóða eru ekki nægilega ígrundaðar. Þetta segi ég ekki af því fólkið sem þar tekur ákvarðanir sé ekki hæft, heldur vegna þess að þau, eins og flest okkar, eru haldin ómeðvitaðri hlutdrægni.

Við erum vön að sjá karla starta fyrirtækjum, við erum vön að sjá þeim ganga vel og þess vegna setjum sjaldan spurningamerki við það þegar karlar kynna góða hugmynd. Sérstaklega ekki ef hún snýst um tækniframfarir af því við erum líka vön því að nýsköpun snúist að stærstu leyti um þær.

Ómeðvitaða hlutdrægnin sáir líka efasemdafræjum um konur. Við höfum ekki eins margar fyrirmyndir. Við erum óvön kvenlægari áherslum, kvenlægari hugðarefnum og kvenlægari framsetningu og þar með mögulega ragari til að fjárfesta í hugmyndum þeirra.

Ákvarðanataka sprotasjóða þarf að vera meðvituð um þetta. Meðvituð um tilhneiginuna til að finnast karlar frambærilegri en konur og tilhneiginguna til að hoppa á tækninýjungar umfram framfarir á sviði velferðar, menntunar, umönnunar eða annarra samfélagslegra þátta.

ÞESSU NÁTENGT...

Ástæðan er auðvitað sú sama og ástæður fyrir kynbundnum launamun og kynjahalla í stjórnunarstöðum og pólítík. Við búum í samfélagi sem karlar hafa skapað og það eru karlar sem hafa farið með vald og átt pening í gegnum tímans rás. Menningin leggur sig fram um að viðhalda sér í óbreyttri mynd – og við lærum og kennum ótal óskráðar og óþekktar reglur sem styrkja hugmyndir okkar um að karlar séu hæfari, verðmætari og eftirsóknarverðari en konur. Ekki af því við ætlum okkur það, heldur af því við erum ekki meðvituð um að þessar reglur eru til né heldur um áhrifin sem reglurnar hafa á ákvarðanir okkar.

Ef við viljum breyta þessu þurfum við að greina allar óskráðu reglurnar, læra um hvernig þær virka og hvernig við getum komið í veg fyrir að þær hafi áhrif á okkur. Við þurfum að vera gagnrýnin á allar ákvarðanir, okkar eigin og annarra, og vera tilbúin að breyta venjum verklagi og verðmætamati. 


Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: