Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Það er stutt síðan ég skrifaði um mögulegar ástæður þess að gerendur séu látnir sæta ábyrgð í auknum mæli í atvinnulífinu. Ég taldi það mögulega vera til að verja ímynd fyrirtækjanna fyrir meintum "dómstól götunnar", en útilokaði þó ekki að ákvarðanirnar væru teknar á faglegum forsendum. Á undanförnum vikum virðast faglegu forsendurnar vera að verða mun fyrirferðarmeiri hjá fyrirtækjum sem er vel. Því er full ástæða til að fjalla aðeins nánar um þær. Ekki síst eftir að ég fann þetta magnaða skrípó frá Maaike Hartjes á Instagram.
Rauðsokkurnar opnuðu augu samfélagsins fyrir því að persónulegt frelsi kvenna væri pólítískt viðfangsefni. Það gengi ekki lengur að karlar hefðu skilgreiningarvald yfir stjórnmálum sem snérust fyrst og fremst um karllæg hugðarefni.
Síðan þá hefur margt gerst. Konur hafa öðlast lögformleg réttindi, glæpir gegn þeim hafa verið skilgreindir í hegningarlögum og innviðum samfélagsins er ætlað að draga úr ólaunaðri vinnu kvenna við hjúkrun, uppeldi, umönnun og þrif.
Í dag vitum við að réttindi og þátttaka kvenna og jaðarsettra hópa krefst þess að allar stofnanir samfélagsins taki mið af fjölbreyttri reynslu, þekkingu, þörfum og vilja. Af því hið persónulega er pólítískt.
Í dag eru fyrirtæki að átta sig á því að líðan kvenna á vinnumarkaði er faglegt viðfangsefni. Rekstur fyrirtækja gengur ekki bara út á að hámarka hagnað og hagnaðurinn næst ekki bara með stærstu markaðshlutdeildinni. Fyrirtækjum ber að axla samfélagslega ábyrgð, tryggja sanngjarna verkaskiptingu, sanngjarna launasetningu og gott starfsumhverfi. Starfsfólk þarf að upplifa sig metið að verðleikum og því þarf að líða vel til að geta lagt sitt af mörkum. Faglega rekin fyrirtæki verða þannig að tryggja persónulega vellíðan starfsfólks.
Óviðeigandi eða ofbeldisfull háttsemi veldur vanlíðan og kemur í veg fyrir að fólk geti unnið vinnuna sína. Fumlaus viðbrögð við ábendingum um slíkt eru því samfélagslega ábyrg og þjóna á sama tíma hagsmunum fyrirtækisins.
Það þykir kannski sorglegt að sjá á eftir farsælum stjórnanda vegna áskana um óviðeigandi framkomu, sér í lagi ef atvikin eiga að hafa átt sér stað utan vinnutíma. Ég hef svo sem samúð með því, en bendi þó á að ekkert á sér stað í tómarúmi. Við erum ein og sama manneskjan hvort sem við erum í vinnunni, heima eða á djamminu. Og sem manneskjur höfum við skoðanir, viðmið og gildi sem við reynum að fylgja og fara eftir.
Það er full ástæða til að efast um faglega hæfni einstaklings sem fer yfir mörk annars fólks í krafti kynferðis, stöðu, uppruna eða annarra áhrifaþátta. Einstaklingur sem gerir slíkt er ekki líklegur til að leggja sig fram um að tryggja konum og jaðarsettu fólki sanngjörn réttindi, starfsaðstæður, launakjör og starfsþróunarmöguleika. Og þar með er tilefni til að efast um stjórnunarhæfni hans.
Brottrekstur er ekki alltaf eina rétta leiðin. Hvert mál er einstakt, það þarf að vinnast í samræmi við þarfir og vilja þolenda og það þarf að reyna að finna leiðir til lærdóms, skilnings og bættrar hegðunar gerenda. En þegar sú leið er talin farsælust, er það ekki bara í þágu þolandans, heldur snýst sú ákvörðun um hagsmuni alls starfsfólks og fyrirtækisins í heild. Af því hið persónulega, pólítíska og faglega er alltaf samofið.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl