Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS

Ég ætlaði að beina sjónum mínum frá forseta Bandaríkjanna í dag, en get ekki annað en skrifað um viðbrögð hans við flugslysinu í Washington í vikunni. Þar hélt Trump uppteknum hætti. Í stað þess að sýna samkennd og meðlíðan fullyrti hann að orsök slyssins væri að áherslur á jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu (JFI) hefðu verið á kostnað öryggis.


Ég vildi að ég gæti sagt að þessi ummæli dæmdu sig sjálf og beint sjónum mínum að einhverju uppbyggilegra, en því miður virðist málflutningur forsetans ná til ótrúlegasta fólks. Hér koma því rök sem hægt er að nota þegar því er haldið fram að áherslan á jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu (JFI) sé farin að hamla öðru starfi.

 

ÓTTARÖK


Andstæðingar JFI hafa lengi reynt að halda því fram að aukinn fjölbreytileiki hljóti að vera afurð jákvæðrar mismununar, að honum sé náð með því að slá af hæfniskröfum. Trump kyndir undir og bætir í þá orðræðu með fullyrðingum um að áherslan á JFI hafi beinlínis kostað mannslíf.


Staðreyndin er sú að skortur á fjölbreytileika dregur úr hæfni og öryggi. Til eru mýmörg dæmi um hönnunargalla, misheppnaðar aðgerðir, slys og vanhugsaðar ákvarðanir sem hafa orðið til af því ákvarðanir þar að lútandi voru teknar af of einsleitum og líkt þenkjandi hópum. Mistök sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir með fjölbreytileika, jafnrétti og inngildandi vinnulagi. Trump og vinir hans eru augljóslega mjög góðir í að gæta eigin hagsmuna og öryggis en það hefur sannarlega verið á kostnað almennings.

 

TVEIR SKÓLAR

 

Áhersla á JFI er að jafnaði rökstudd annað hvort með hagkvæmnissjónarmiðum eða sanngirnissjónarmiðum, en hvorugt útilokar þó hitt.


Hagkvæmnissjónarmið hafa löngu sannað sig. Fjölbreyttir hópar fólks ná alltaf betri árangri en einsleitir, að því gefnu að fjölbreytileikinn fái að njóta sín. Innan hópanna þarf því að ríkja jafnrétti og allt fólk í hópunum þarf að vera metið að verðleikum, bæði vegna sérstöðu sinnar en líka þrátt fyrir sérstöðu sína. Þannig þarf að tryggja að aðstæður komi til móts við fjölbreyttar þarfir og að tekið sé mark á ólíkum röddum, sjónarmiðum og skoðunum.


Sanngirnissjónarmið byggja á því að allt fólk eigi að búa við öryggi, vellíðan og jöfn tækifæri til þátttöku óháð hagkvæmnisjónarmiða. Því miður er enn langt í að það verði að veruleika, þó miklar framfarir hafi átt sér stað á undanförnum áratugum. Konur, kvár og jaðarsett fólk hafa lagt á sig ómælda vinnu við að öðlast réttindi og viðurkenningu sem hefur leitt til þess að fjölbreyttari hópur fólks tekur þátt og hefur áhrif en betur má ef duga skal. Þar getum við öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar með ólíkum hætti.

 

ÁFRAM VEGINN

 

Látum ekki óttastjórnun hafa áhrif á okkur. Tölum ótrauð fyrir JFI. Minnum á að flugvélar, þyrlur (og allt annað í heiminum) þarf að vera hannað og stýrt af og fyrir fjölbreytta hópa fólks. Annað væri bæði óhagkvæmt og ósanngjarnt.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
Eftir soleytomasdottir 23. janúar 2025
AUKAHUGLEIÐING IV: FRELSIÐ OG ÓGNIRNAR SEM AÐ ÞVÍ STEÐJA
ELDRI FÆRSLUR
Share by: