Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?

Á Íslandi ríkir þjóðarsorg vegna fráfalls Ólafar Töru Harðardóttur, konu sem beitti sér fyrir öryggi, friði og velferð kvenna þar til hún dó, langt fyrir aldur fram. Skrif hennar, ræður og aktívismi hafa haft gríðarleg áhrif á líf og líðan brotaþola og aktívista og vakið fullt af fólki til umhugsunar um meinsemdina sem kynbundið ofbeldi er.


Ólöf Tara benti ítrekað á galla réttarkerfisins. Bæði á ósanngirni sakfellingarhlutfalls í kynferðisbrotamálum og hvernig kerfið hefur verið notað til að þagga niður í brotaþolum í aldanna rás. Hvernig hönnun þess þjónar hagsmunum gerenda, þar sem brotaþolar eru reglulega kærðir fyrir að kæra eða jafnvel bara tjá sig um ofbeldið sem þær hefðu orðið fyrir.


Ólöf Tara og konurnar í Öfgum og Vitund hafa ekki verið einu konurnar til að benda á þetta. Kvenfrelsisbaráttan hefur hverfst um öryggi kvenna í áratugi, þar sem Stígamót, Kvennaathvarf og mörg önnur samtök hafa lyft grettistaki.

 

ANDSTAÐAN

 

Krafan um öryggi og velferð kvenna krefst umfangsmikilla breytinga á hugsunarhætti, verðmætamati og vinnulagi í öllu samfélaginu. Þær breytingar hafa mætt mikilli andstöðu sem birtist með margvíslegum hætti hvar sem er.


Réttarkerfið hefur reynst sérstaklega þrjóskt og andstaðan þar hefur verið einkar harkaleg, þar sem sérstakir og sjálfskipaðir varðhundar feðraveldisins hafa lagt sig fram við að gaslýsa brotaþola og ýta undir gerendameðvirkni í samfélaginu. Einn þeirra er lögmaðurinn Brynjar Níelsson. Hans framlag í þágu nektardansstaða og vændiskaupenda hefur verið umtalsvert, auk þess sem hann hefur notað hvert tækifæri sem gefst til að rýra trúverðugleika kvenna, brotaþola og aktívista eins og sjá má á meðfylgjandi klippimynd. 

 

HÆFI


Í vikunni komst dómnefnd um hæfi umsækjenda að þeirri niðurstöðu að Brynjar Níelsson væri hæfastur til að gegna embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ég efast ekki um að það sé rétt mat hjá nefndinni. Hann uppfyllir alveg örugglega öll skilyrði og nýr dómsmálaráðherra, sem brennur fyrir bættum úrræðum í þágu kynferðisbrota, getur örugglega ekkert annað gert en að skipa manninn í embættið.


Þetta hæfismat sýnir hvað við eigum langt í land og hvað það er mikilvægt að hæfni sé ekki bara skilgreind út frá reynsluheimi hvítra forréttindakarla. 

 

VIÐ HÖLDUM ÁFRAM


Ólöf Tara var óhrædd við að benda á galla réttarríkisins og afleiðingar þess, krefjast breytinga sem þyrftu að eiga sér stað og standa með þeim sem þetta meingallaða kerfi bitnar á.


Nú þegar hennar krafta nýtur ekki lengur við, verðum við hin að vera enn háværari. Við verðum að halda ótrauð áfram í þágu jafnréttis, fjölbreytileika og inngildingar, þar sem fjölbreytt sjónarmið taka tillit til fjölbreyttra þarfa. Eitt augljóst og brýnt verkefni er að endurskoða kröfur um hæfni til dómaraembætta. Hæfni til að læra um og taka tillit til reynsluheims jaðarsetts fólks, samkennd með fólki og mannúðarsjónarmið hljóta að þurfa að komast á blað.


Þjóðarsorg er falleg og mikilvæg. En aðgerðir hafa meiri áhrif. Í anda Ólafar Töru legg ég til að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja velferð og öryggi fólks. Breytum því sem við höfum vald til að breyta og krefjumst þess að annað fólk geri það líka. Réttarkerfið er ekki meitlað í stein. Breytum því svo það þjóni okkur öllum.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
Eftir soleytomasdottir 23. janúar 2025
AUKAHUGLEIÐING IV: FRELSIÐ OG ÓGNIRNAR SEM AÐ ÞVÍ STEÐJA
ELDRI FÆRSLUR
Share by: