Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN

Ég stóð við heitið um að láta meira fyrir mér fara á samfélagsmiðlum Meta í vikunni. Það skorti svo sem ekki umfjöllunarefnin, enda eru fyrstu embættisverk Trump efni í marga bókaflokka. 


Eftirá að hyggja veitti ekkert af daglegum hugleiðingum við þessar aðstæður. Skrifin komu reiðu á mínar eigin hugsanir, sem oft voru óreiðukenndar og óþægilegar og þær gögnuðust vonandi lesendum sem einhvers konar greining á atburðarrásinni. Síðast en ekki síst, veittu þær Trumpliðum mótvægi á samfélagsmiðlum.


Ég viðurkenni að vikan var þung. Ég þurfti að hafa mig alla við til að detta ekki í vonleysi og bugast af sorg. Það var hræðilegt að fylgjast með fasi, framkomu, ákvörðunum og stefnumótun nýrra valdhafa í Bandaríkjunum. En viðspyrnan hélt mér gangandi. Fólk sem notaði raddirnar sínar, lyklaborð og listræna hæfileika til að mótmæla með öllum mögulegum hætti. Það nærði mína eigin viðspyrnu, svo ég gat greint, rætt og skrifað.

 

UPPSKERAN


Þessi samfélagsmiðlasprettur hefur ekki bjargað heiminum. Hann hafði samt einhver áhrif. Hugleiðingarnar mínar voru mjög mikið lesnar, þeim var deilt og umræður um þær voru að mestu leyti uppbyggilegar. Æ fleiri taka undir gagnrýni á skautunarhugtakið og æ fleiri eru til í að ræða leiðir og taka þátt í að þoka heiminum í átt að inngildingu.


Eitt þótti mér sérstaklega vænt um. Ég skrifaði ekki bara hugleiðingar, heldur tók þátt í margskonar umræðum á samfélagsmiðlum. Meðal annars um hugtakið stórforeldri. Á einum stað voru miðaldra karlar að ræða hugtakið af léttúð. Einn spurði hvort hann mætti kalla sig afa og annar svaraði að það væri bara eitruð karlmennska og hatursorðræða sem kallaði á að menn yrðu strýktir og steiktir á teini.


Ég útskýrði fyrir þeim það væri ekkert að óttast. Stórforeldri væri viðbót við annars góð hugtök og kallaði ekki á neinar breytingar af þeirra hálfu. Nú ættu kvár aftur á móti líka hugtak sem gerði þeim kleift að kenna sig við þetta mikilvæga hlutverk.


Mennirnir voru mis móttækilegir fyrir athugasemdum mínum. Annar þeirra sleppti alveg efnislega hlutanum og afgreiddi mig sem yfirlætislega, eins og menn gera svo gjarnan þegar ég leyfi mér að beita þekkingu minni í rökræðum. Hinn hugsaði málið og þakkaði mér fyrir málefnalegt svar við innleggi sem sett var fram í hálfgerðri hæðni. Auðvitað ætti fólk að fá að nota orð um sig sjálf sem best þykja hæfa. Svarið hafi leitt hann til umhugsunar og samtals sem hann hafði gagn af.


Það er svona sem við náum árangri. Ekki með því að afgreiða það sem skautun þegar fólk er ósammála, heldur með því að miðla þekkingu og taka við þekkingu. Læra um stöðu annars fólks og miðla því sem við lærum. Rækta samkennd og samstöðu í gegnum samtal.

 

ÁFRAM VEGINN


Ég ætla ekki að skrifa daglegar hugleiðingar að eilífu. En ég ætla að halda áfram að vera virkari og hvet ykkur til hins sama. Deila aðeins meira af efni frá öðrum. Taka þátt í aðeins fleiri umræðum. Skrifa aðeins meira. Af því það skiptir máli.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 23. janúar 2025
AUKAHUGLEIÐING IV: FRELSIÐ OG ÓGNIRNAR SEM AÐ ÞVÍ STEÐJA
ELDRI FÆRSLUR
Share by: