Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Nú stendur til að senda um 300 einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi úr landi. Mörg verða send til landa þar sem lítil sem engin von er um að þau geti komið undir sig fótunum. Dómsmálaráðherra segir þetta hið eðlilegasta mál og í fullu samræmi við lög og reglur. Stjórnarandstaðan segir dómsmálaráðherra vera að nýta sér lög og reglur í þágu útlendingaandúðar Sjálfstæðisflokksins. Örlitlar veikburða mótbárur frá Vinstri grænum mega sín lítils, enda hafa þau falið Jóni Gunnarssyni málaflokkinn til meðferðar.
Enn eina ferðina eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í beinni andstöðu við meinta stefnu og hugmyndafræði Vinstri grænna. (Fyrrum) kjósendur Vinstri grænna reiðast að vonum og gagnrýna hreyfinguna harkalega. Jafnvel með vísan til ákveðinna svæða í helvíti. Upphefst þá, einu sinni sem oftar, umræða um réttmæti gagnrýninnar og framsetningu í stað þess að ræða innihald hennar og efnisatriði. Í þessu samhengi hafa hugtökin afmennskun og hatursorðræða ítrekað verið nefnd.
Ég efast ekki um að áðurnefnd gagnrýni sé sársaukafull fyrir þau sem fyrir henni verða. Gagnrýnin hefur verið hvöss og óvægin og orðljót. En hún er ekki afmennskandi og hún flokkast ekki undir hatursorðræðu. Nú ætla ég að útskýra af hverju.
Afmennskun og orðræða eru félagslega mótuð fyrirbæri og verða ekki slitin úr samhengi við valdakerfi samfélagsins. Rétt eins og öráreiti virka ekki sem útilokandi hegðun gagnvart fólki í forréttindastöðu er eiginlega ómögulegt að afmennskun og hatursorðræða jaðarsetji fólk í valdastöðum. Óvægin gagnrýni getur haft áhrif á virðingu gagnvart stjórnmálafólki, áhuga fólks á stjórnmálum og lýðræði en hún hefur aldrei áhrif í líkingu við þá sem afmennskun og hatursorðræða hafa á stöðu jaðarsetts fólks.
Í raun er grafalvarlegt að bæði framkvæmdastjóri og formaður þingflokks Vinstri grænna skuli fara svona frjálslega með hugtökin, enda eru þau í lykilstöðu til að draga úr jaðarsetningu, afmennskun og hatursorðræðu gagnvart jaðarsettum hópum í samfélaginu.
Ég hef áður fjallað um sjálfvirk varnarviðbrögð, einhvers konar viðbragðaferli sem fólk virðist fara í gegnum þegar það verður uppvíst að óviðeigandi hegðun eða mismunun. Vinstri græn virðast vera föst á öðru þrepi ferlisins, þar sem þau upplifa að gagnrýnin á þau byggi fyrst og fremst á mannvonsku gagnrýnenda:
Það væri óskandi ef Vinstri græn færðu sig yfir á næstu skref. Mögulega þurfa þau fyrst að ganga í gegnum einhvers konar réttlætingarskeið, að þetta sé ekki þeirra vilji, en þau beri því miður ekki ábyrgð á málflokknum. Jón Gunnarsson vilji hafa þetta svona og hann sé nú einu sinni dómsmálaráðherra.
Best væri þó ef þau kæmust lengra en það. Af því gagnrýnin er réttmæt og þau geta breytt. Þau geta sett samstarfsflokkum sínum stólinn fyrir dyrnar og jafnvel slitið stjórnarsamstarfi við flokk(a) sem beita reglum, kerfum og stofnunum í þágu eigin útlendingaandúðar. Í framhaldinu mætti svo draga margvíslega lærdóma af málinu, en það er efni í aðra og jafnvel margar hugleiðingar.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl