Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: FEMÍNÍSK SAMSTAÐA

Stefán Ólafsson skrifaði grein í vikunni, þar sem hann mærði Sólveigu Önnu Jónsdóttur í hástert og kallaði eftir skilyrðislausum stuðningi við hana af hálfu ólíkra hópa samfélagsins, sér í lagi jafnaðarfólks og femínista. Mér fannst greinin einkar athyglisverð.

Samkvæmt Stefáni á ég að styðja Sólveigu Önnu af því hún er er öflug talskona láglaunakvenna. Ég á ekki að láta það þvælast fyrir mér þó hún sé beinskeytt og hvöss enda segir Stefán slíkt hafa notið virðingar í karlaheimi fortíðar, þegar Guðmundur Jaki var og hét. Svo vill hann að ég færi fókusinn frá háskólamenntuðu fólki yfir á þau verst settu.



SATT OG RÉTT

Það er rétt hjá Stefáni að Sólveig Anna er gagnrýnd oftar, harðar og persónulegar en karlkyns forverar hennar og samstarfsmenn. Það á við um allar konur sem taka sér pláss í karllægum geirum. Það er ósanngjarnt og það tekur á. Ég hef ítrekað bent á mikilvægi þess að við sýnum konum í þessari stöðu skilning, vöndum gangrýnina og skerpum á stuðningnum.

Það er líka rétt að femínísk barátta hefur í gegnum tíðina verið háð af háskólamenntuðum millistéttarkonum sem hafa haft aðstæður til að beita sér, en of oft miðað baráttuna við eigin reynsluheim á kostnað jaðarsettari kvenna.



ÞVÍ TIL VIÐBÓTAR

Þessi skrif Stefáns eru þó mikil einföldun á raunveruleikanum. Femínistar eru nefnilega ekki einn hópur með eina skoðun. Femínísk hugmyndafræði er flókin og margþætt. Hún býður upp á fjölbreytt sjónarhorn, baráttuaðferðir og leiðir. Þó femínistar eigi það sameiginlega markmið að uppræta karllægt valdakerfi, þá er ekki hægt að krefja alla femínista um að finnast eitthvað, beita sér fyrir einhverju eða styðja einhverja.



ÞVERT Á MÓTI

Krafa Stefáns er í anda karlaheims fortíðar. Guðmundur Jaki var verkalýðsforkólfur á seinni hluta síðustu aldar. Þá þóttu konur kannski töff ef þær höguðu sér eins og karlar. Þá þótti kannski í lagi að þagga niður í og úthýsa fólki sem spurði gagnrýnna spurninga á vinnustaðnum og þá þótti kannski í lagi að gamall karl segði femínístum hvað þeir ættu að gera. Ekki í dag.

Þó ég telji mikilvægt að standa með konum í karllægum geirum, þá geri ég það ekki skilyrðislaust. Ég er ekki til í þá einstaklingsdýrkun sem Stefán leggur til. Mér hugnast illa karllæg átakasækni og líður ekki vel að sjá verkalýðsfélög haga sér með sama hætti og talsmenn atvinnurekenda. Og talandi um það, þá finnst mér framkoma Sólveigar Önnu við samstarfsfólk sitt hjá Eflingu vera óboðleg. Það er því af málefnalegum ástæðum sem ég hef ákveðið að verða ekki við ákalli Stefáns.



SAMSTAÐAN

Það þýðir ekki að ég standi ekki með láglaunafólki. Ég tel löngu tímabært að endurskoða kjaramódel samfélagsins og draga úr ójöfnuði í alla staði. Þess vegna vil ég standa með verkalýðsfélögunum sem reisa kröfur og grípa til aðgerða. Ég lít ekki á verkalýðsfélögin sem einn sterkan leiðtoga annars vegar og umbjóðendur hins vegar eins og Stefán, heldur sem vettvang þar sem öllu félagsfólki á að geta liðið vel og finnur baráttu sinni farveg í samstöðu. Ég vona að einn góðan veðurdag beri Efling gæfu til þess.
 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: