Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

UMRÆÐA VIKUNNAR: MENNINGARNÁM

Í Facebookhópnum Handóðir prjónarar varð uppi fótur og fit í vikunni, þegar kona nokkur deildi tveimur myndum af nýjasta Lopablaðinu og sagði þær „vægast sagt ósmekklegt útspil“. Önnur myndin var af tjaldi sem kennt hefur verið við frumbyggja N-Ameríku og kallast Týpí, og hin af brúnni prjónaðri dúkku.

Þegar innleggið var tekið út höfðu 118 athugasemdir verið skrifaðar. Þar kom fram mikil hneykslan yfir gagnrýninni, talsvart var um réttlætingu en litlar sem engar umræður áttu sér stað.

Degi síðar kom annað innlegg í hópinn, þar sem gerð var tilraun til að útskýra það sem kallast menningarnám (e. cultural appropriation), m.a. útskýrt að orðið indjánatjald er í eðli sínu rasískt og að útlit dúkkunnar gæti að sama skapi túlkast sem rasískt.

Í dag eru 355 athugasemdir við nýja innleggið. Langflestar þeirra eru alger og heiftúðug fordæming á efni innleggsins. Talað er um bull, móðgunargirni, talíbanareglur og útrýmingu, beðið um að svona rétttrúnaði sé haldið utan prjónahópsins, að fólk eigi að finna sér eitthvað mikilvægara til að hafa áhyggjur af og svo ansi margar spurningar um hvort útlendingar megi þá ekki ganga í íslenskum lopapeysum.



HVAÐ ER MENNINGARNÁM?

Menningarnám er framið af hvítu fólki sem tileinkar sér eitthvað úr menningu fólks sem er jaðarsett. Það er sjaldnast framið af illum ásetningi, heldur vegna tilkalls (e. entitlement) forréttindafólks til þess sem því þykir smart, án þess að bera virðingu fyrir menningarlegu gildi fyrirbærisins eða átta sig á því að fólkið sem á það hefur verið jaðarsett, m.a. fyrir að nota fyrirbærið, hvort sem það eru tjöld, hárgreiðsla, klæðnaður, skart, förðun eða annað sem vísar til menningararfs viðkomandi.

Það er flókið að skilja alvarleika og áhrif menningarnáms, sérstaklega fyrir okkur sem höfum alist upp í hvítri vestrænni menningu, enda höfum við hvorki mætt mótlæti eða hindrunum vegna hennar. En menningarnám á sinn þátt í að viðhalda stöðu og skilgreiningarvaldi og hvítrar vestrænnar menningar í heiminum - eins og meðfylgjandi vídeó útskýrir mætavel.



HARKAN

Harka umræðnanna minnti mig á gamla daga. Þegar fólk skildi ekki af hverju það var ósmekklegt að skreyta bíla með fáklæddum konum í auglýsingum eða af hverju það skipti máli að hafa konur í umræðuþáttum í sjónvarpi. Þá voru viðbrögðin mjög svipuð. Fólk bað um að fá að vera látið í friði fyrir svona rétttrúnaði og móðunargirni og allskonar whataboutisma varpað fram.

Þessi varnarviðbrögð einkennast af vanmætti, fólki finnst óþægilegt að vera bendlað við kvenfyrirlitningu eða rasisma og vill frekar réttlæta og útskýra hegðun sína en að læra um af hverju hún er óviðeigandi.



BERSKJÖLDUN OG AUÐMÝKT

Ég er ekki best í að útskýra menningarnám, enda er ég að læra um það sjálf. Markmiðið með þessari hugleiðingu er heldur ekki að veita ítarlega fræðslu um menningarnám, heldur að vekja fólk til umhugsunar og hvetja okkur öll til að vera auðmjúk gagnvart því sem við skiljum ekki.

Við getum ekki orðið betri manneskjur nema skilja það sem við getum bætt og það gerum við með því að læra um valdakerfið. Við þurfum að hlusta, læra og breyta þegar okkur er bent á að við séum að taka þátt í, viðhalda eða stuðla að mismunun með einhverjum hætti. 


Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: