Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Nú þegar þing hefur verið sett, ríkisstjórn mynduð og samið hefur verið um nefndaskipan kemur í ljós að kynjahlutföll í fastanefndum eru rammskökk. Í velferðarnefnd sitja sex konur og þrír karlar og í utanríkismálanefnd sitja sjö karlar og tvær konur, svo einhver dæmi séu nefnd. Þetta er ekki í fyrsta skipti. Fréttir af ójöfnum kynjahlutföllum í nefndum virðast vera fastur liður í upphafi kjörtímabila.
Það er sérstakt að löggjafinn, sem hefur sett allskonar reglur um kynjakvóta í samfélaginu, geti ekki uppfyllt eigin þingsköp. Í gegnum tíðina hafa þær skýringar verið gefnar að tilnefningafyrirkomulagið geri þinginu ekki kleift að tryggja jafnvægi, flokkarnir tilnefni fólk út frá hæfni og áhugasviði og það sé svo flókið að raða fólkinu niður að þessar tilnefningar verði bara að fá að standa.
Þetta eru sambærileg rök og hafa verið notuð gegn kynjakvótum almennt, að jöfn kynjahlutföll hjóti að vera á kostnað þekkingar eða hæfni. Að þar með sé frelsi hluthafa/forstjóra/stjórna takmarkað við kyn sem hljóti að hafa neikvæð áhrif á þekkingu, færni eða hæfni hópsins sem um ræðir.
Kynjakvótar leysa ekki kynjamisrétti í samfélaginu og þeir eru ekki trygging fyrir kynjasjónarmiðum. Þeir eru samt hluti af lausninni af því kynjasjónarmið eru líklegri til að vera höfð að leiðarljósi ef öll kyn koma að ákvarðanatöku. Ákvarðanir sem teknar eru með hliðsjón af kynja- og fjölbreytileikasjónarmiðum eru líklegri til að mæta þörfum, vilja og væntingum breiðari hóps. Þannig eru þær alla jafna betri en ákvarðanir sem teknar eru af einsleitum hópum. Ef við gefum afslátt af kynjasjónarmiðum, þá erum við að gefa afslátt af þekkingu og færni hópsins sem um ræðir.
Allt það fólk sem nú situr á þingi hefur hlotið umboð þjóðarinnar til að gegna öllum þeim hlutverkum sem þingið krefst. Þau hafa aðgang að aðstoð og ráðgjöf frá sérfræðingum í öllum málaflokkum og eru þannig öll fullfær um að sinna því sem þarf. Ef fyrirkomulag tilnefninga er gallað, þá þarf að laga það.
Í borgarstjórn er sambærilegt fyrirkomulag við kosningar í nefndir og ráð. Flokkarnir tilnefna fulltrúa sem svo eru kosnir í borgarstjórn/borgarráði. Á meðan ég var í borgarstjórn kom það oft fyrir að fyrstu tilnefningar enduðu í ójöfnum kynjahlutföllum. En þverpólítísk samstaða um mikilvægi kynjajafnvægis gerði það að verkum að við fundum alltaf lausnir. Það var alltaf einhver flokkur sem gat fært til fólk og ekkert okkar taldi það eftir sér.
Stjórnmálin krefjast þverpólítísks samráðs um ótrúlega mörg mál. Þó það sé oft flókið og erfitt er samstarf milli flokka að jafnaði gott og kjörnir fulltrúar komast yfirleitt að ásættanlegri niðurstöðu á endanum. Kynjahlutföll í fastanefndum ætti að vera eitt þessara viðfangsefna. Ég skora á þingfólk að taka sér borgarstjórn til fyrirmyndar og tryggja jöfn kynjahlutföll í gegnum samtal áður en að kosningu kemur. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl