FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÞAU VILDU VEL...

Ég hélt erindi á haustráðstefnu Verkefnastjórnunarfélags Íslands í gær. Ekki til að hjálpa þeim að straumlínulaga eða fylgja ferlum, heldur þvert á móti að vera gagnrýnin á öllum stigum verkefnastjórnunar. Máli mínu til stuðnings sagði ég frá barnabótaskandalnum í Hollandi.

 

BARNABÓTASVINDL


Árið 2005 var tekið upp nýtt barnabótakerfi í Hollandi, sem var ætlað að tryggja sanngjarnar niðurgreiðslur á dagvistun út frá upplýsingum frá foreldrum um stöðu á vinnumarkaði, áætlaðar árstekjur og áætlaðan kostnað vegna dagvistunar.


Fljótlega fór að bera á einhverri misnotkun, t.d. þar sem of langir vistunarsamningar voru falsaðir eða tekjur vanáætlaðar. Tortryggnin óx jafnt og þétt og endaði með zero-tolerance stefnu árið 2012. Þá var farið í stórátak til að uppræta stórfellda misnotkun.


Næstu fimm árin voru 26.000 fjölskyldur rukkaðar um ofgreiðslur sem samsvöruðu 73 milljörðum íslenskra króna. Svikin voru innheimt undantekningarlaust, án andmælaréttar, umþóttunartíma eða samningaviðleitni. Almennt var góð stemning í samfélaginu fyrir aðgerðunum enda vörðuðu þær almannafé og þar með almannahagsmuni.

 

SKANDALLINN AFHJÚPAÐUR

 

Það var ekki fyrr en 2018 sem fyrstu foreldrarnir stigu fram og sögðu frá reynslu sinni af innheimtuaðgerðum hins opinbera. Í kjölfarið stigu fleiri fram og fljótlega var orðið ljóst að ekki var allt með felldu. Á endanum var gerð opinber rannsókn á átakinu sem leiddi til áfellisdóms yfir öllum sem að málinu höfðu komið.


Niðurstöðurnar leiddu í ljós að ítrekuð gagnrýni á kerfið hafði ekki verið tekin til greina, t.d. varðandi óáreiðanleika í fyrirframáætluðum tekjum og kostnaði. Aðgerðirnar beindust fyrst og fremst að fólki með innflytjendabakgrunn og veikt félagslegt bakland og innheimtukröfurnar voru ekki í neinu samræmi við innheimtukröfur vegna annarra mistaka í meðferð opinberra fjármuna.

 

AFLEIÐINGARNAR


Nú er ljóst að þúsundir fjölskyldna munu aldrei bíða þessa átaks bætur. Þau voru þjófkennd, gert að greiða óviðráðanlegar upphæðir fyrirvaralaust, misstu æruna, andlega og líkamlega heilsu – og fjöldi gjaldþrota, skilnaða og sjálfsvíga eru rakin beint til þessara aðgerða. Yfir 2000 börn voru tekin af foreldrum sínum og enn eru einhver hundruð í fóstri. Langflestar þessara fjölskyldna voru heiðvirt fólk sem hafði veitt upplýsingar samkvæmt bestu samvisku í flóknu, óþjálu og meingölluðu kerfi, án aðstoðar eða leiðbeininga frá hinu opinbera.


Í Hollandi ríkir enn þjóðarskömm vegna málsins. Ríkisstjórnir hafa fallið og vantraust almennings gagnvart stofnunum og stjórnmálum er gríðarlegt. Enn hafa sanngirnisbætur ekki verið greiddar að fullu, enda ómögulegt í þeim tilfellum þar sem fjölskyldur hafa splundrast og líf glatast.

 

LÆRDÓMURINN


Ég sagði verkefnisstjórum frá þessu máli í gær til að minna þau á allar hætturnar sem leynast í ferlunum okkar, venjunum, stemningu sem skapast og í raun ofmati okkar á eigin hæfni og sanngirni.


Barnabótaskandallinn var samstarfsverkefni ráðherra, þingfólks og starfsfólks skatta-, skóla- og þjónustuskrifstofa þar sem öll töldu sig vera að vinna að þjóðarhag. Ekkert þeirra ætlaði sér að mismuna, en þau tóku öll þátt í því.


Það er alveg sama hvort við erum að búa til verkferil, fylgja verkferli, endurskoða eða þróa. Það eru alltaf líkur á að í þeim felist ómeðvitaðar skekkjur vegna okkar ómeðvituðu hlutdrægni. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum gagnrýnin á okkur sjálf, verkferla, venjur, gildi og viðmið. Að við höfum kjark til að benda á mögulega ósanngirni, tíma til að ræða hana og ráðrúm til að taka ólík sjónarmið þar inn.


Niðurstaða erindisins var því sú að við eigum að flækja ferlana okkar frekar en einfalda. Við eigum að tryggja að þeir séu stöðugt í rýningu, að gagnrýni sé velkomin, rædd og metin. Það er eina leiðin til að tryggja að þeir virki sem skyldi.

 

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 30. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ANDÚÐ OG UPPHAFNING
Eftir soleytomasdottir 24. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!
Eftir soleytomasdottir 17. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REYKJAVÍKURMÓDELIÐ  OG EFNAHAGSLEGUR VERULEIKI EINSTÆÐRA FORELDRA
ELDRI FÆRSLUR