Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

KONA VIKUNNAR: VANDA SIGURGEIRSDÓTTIR

Þegar Vanda var kjörin formaður KSÍ hafði ég áhyggjur af framtíð hennar því konur sem brjóta glerþök verða fyrir harðari, persónulegri og tíðari gagnrýni en karlkyns forverar þeirra. Til þeirra eru gerðar óraunhæfar og ósamrýmanlegar kröfur um að þær breyti því sem þarf að breyta hratt og örugglega, en geri það án þess að virðing og stöðugleiki fyrirbærisins sem þær eru í forsvari fyrir bíði hnekki. Þær eiga hvorki að ögra né styggja, heldur gangast inn í karllæga menningu og breyta henni með einhvers konar töfrum.

 

Til að bæta gráu ofaná svart eru glerþökin oftast brotin þegar karlarnir hafa klúðrað einhverju svo svakalega að þeir sjái enga lausn í sínu karllæga sjónmáli. Þetta er kallað glerbrúnin; þegar konur komast til valda en eiga það á hættu að falla á sverðið ef ekki tekst að leysa þann vanda sem karlarnir hafa skapað. Þessar konur taka því sjaldnast við góðu búi, heldur bíður þeirra langoftast bú sem nálgast fjárhagslegt og/eða siðferðilegt gjaldþrot.

VANDA FORMAÐUR

Tveggja mánaða löng formannstíð Vöndu hefur verið viðburðarrík. Aðstoðarlandsliðsþjálfarinn var rekinn fyrir drykkjuskap og út er komin skýrsla um ofbeldismenningu og þöggunartilburði fyrrum stjórnenda. Hvort tveggja eru stórmál sem myndu reyna á alla formenn, enda alls ekkert einfalt að ákveða hver, hvenær og hvernig þeim er miðlað til þjóðarinnar.

 

Í vikunni mætti Vanda í útvarpsviðtal þar sem hún svaraði fyrir gagnrýni á skýrsluna og hana sem formann. Svörin voru gerólík því sem við höfum átt að venjast.

 

Aðspurð um hvort hún sé sammála því mati þolenda að skýrslan sé gaslýsing á þolendur svaraði Vanda: „Mér finnst leitt að þau upplifi þetta svona en sýni því alveg skilning [...] Það er ekki mitt að dæma um það. Ef að þau upplifa það þannig, þá upplifa þau það þannig.“ Það eru sannarlega nýmæli að formaður risastórrar hreyfingar mæti gagnrýni með slíkri auðmýkt. Vanda hefði vel getað gripið til varna og lýst sig ósammála matinu. Hún valdi að gera það ekki. Það er til marks um að vilji hennar til að hlusta á þolendur og læra af gagnrýni sé raunverulegur.

 

Þegar Vanda var spurð hvers vegna hún hefði hunsað fyrirspurnir og símtöl fjölmiðla eftir uppsögn aðstoðarlandsliðsþjálfarans svaraði hún: „Ég ætla bara að vera hreinskilin. Ég var alveg buguð eftir þetta. Mér fannst þetta hrikalega sorglegt og ég var sorgmædd í hjartanu mínu. [...] Ég hefði bara farið að gráta. [...] Ég bara treysti mér ekki í þetta.“ Þetta svar var gerólíkt öllu því sem við höfum heyrt frá forverum Vöndu, eða körlum í áhrifstöðum yfir höfuð.

FRAMTÍÐIN

Auðmýkt Vöndu og áherslan sem hún lagði á eigin tilfinningar og vanlíðan vegna erfiðra mála er líklega ein stærsta yfirlýsing sem komið hefur fram frá konu sem brotið hefur glerþak. Viðbrögð hennar og áherslur eru til marks um að hún hafi ekki og ætli sér ekki að taka upp karllæga nálgun í starfi.

 

Þessi yfirlýsing vekur von en á sama tíma ugg. Það er raunveruleg hætta á að Vanda verði ekki viðurkennd sem alvöru formaður til framtíðar, heldur sé hún tímabundin hreingerningarkona vegna klúðursins. Takist henni að endurheimta traust almennings gagnvart KSÍ er líklegt að mörgum finnist hún hafi gert sitt og að strákarnir geti haldið áfram með alvörumálin. Takist henni það ekki er líklegt að henni verði kennt um, en ekki körlunum sem ollu vandanum.

OKKAR HLUTVERK

Ef við viljum breytingar, ekki bara í KSÍ heldur almennt á gildum og viðmiðum forystufólks, þá þurfum við að standa með Vöndu. Skilja hennar flóknu stöðu og styðja hana til áframhaldandi forystu í knattspyrnusambandinu. Hún mun ekki bara breyta knattspyrnunni, heldur er hún fyrirmynd sem fólk af öllum kynjum í ábyrgðarstöðum þarf á að halda.

 

Bestu kveðjur,

 

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: