Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Ég fór í viðtal á Rás 1 í vikunni þar sem ég svaraði innsendum spurningum frá hlustendum. Hugleiðing vikunnar fjallar um eina þeirra, sem var efnislega svona:
Ég þekki til máls þar sem tvær manneskjur voru saman en annar aðilinn sagði frá því seinna að hann hefði upplifað að brotið hefði verið á sér. Hinn aðilinn kom af fjöllum. Hvað get ég gert þar sem ég get ekki vitað hvor aðilinn hefur „rétt fyrir sér“?
Til að geta svarað þessari spurningu þarf að kafa aðeins ofaní samfélagsgerðina. Við erum öll afurð samfélags sem byggir á mjög skýrum staðalmyndum um hvernig karlar og konur eiga að vera. Við erum undir áhrifum skaðlegrar karlmennsku, þar sem lögð er áhersla á líkamlega yfirburði, hörku og keppnisskap og skaðlegs kvenleika (sem fræðin kalla styðjandi kvenleika) þar sem lögð er ofuráhersla á tillitssemi, næmni og tilfinningar.
Ungt fólk í dag hefur alist upp í samfélagi þessara staðalmynda sem auk þess samþykkir og jafnvel ýtir undir ofbeldismenningu í gegnum klám og popkúltúr. Skýrasta (en ekki eina) dæmið er líklega að finna í bókum, hegðun og framkomu Egils Einarssonar, sem hafa haft mjög skaðleg áhrif á hugmyndir um karlmennsku og samskipti kynjanna í samfélaginu. Það má því vera að einhverjir gerendur átti sig einfaldlega ekki á gjörðum sínum. Að þeir hafi haldið að ofbeldið væri samþykktur hluti af kynlífi. En það þýðir ekki að það hafi ekki átt sér stað.
Við erum líka alin upp við að treysta og trúa körlum umfram konur. Við erum vön að sjá þá fara með vald og ábyrgð og þeir birtast okkur frekar sem sérfræðingar og álitsgjafar, þeir tala oftar og meira í fjölmiðlum og á fundum og hugmyndir þeirra eru teknar alvarlega af fólkinu í kringum okkur. Við erum þannig líklegri til að taka karla alvarlega en konur. Þessu til viðbótar styrkir hannúð, skrímslavæðing meintan geranda í að afneita ofbeldinu og okkur hin til að trúa honum frekar en meintum þolanda.
Prófum að ímynda okkur annars konar aðstæður. Gunna segir mér að Jón hafi rekist utaní hana með þeim afleiðingum að hún hafi dottið og meitt sig. Kannski kemur Jón af fjöllum, varð bara alls ekki var við að hafa rekist í hana. Kannski rakst hann viljandi í hana. Við vitum það ekki. En við efumst ekki um að það hafi gerst. Og við veltum því ekki fyrir okkur hvort Gunna hafi mögulega kallað þetta yfir sig með því að vera of nálægt Jóni.
Svona spurningar eru til komnar af gerendameðvirkni. Í raun er verið að spyrja hvort við þurfum að horfast í augu við ofbeldismenninguna og hvort við eigum að trúa þolendum. Og svarið við báðum spurningum er já.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl