Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Þegar amma var ung, að sauma og elda og þrífa og ala upp sex börn við þröngan kost, dreymdi hana um að vera stungið í steininn. Að vera ein með sjálfri sér og stafla af bókum og láta færa sér nauðsynlega næringu. Við hlógum oft að þessum draumi hennar sem var samt svo skiljanlegur.
Ég skrifa þennan pistil á sóttkvíarhóteli. Fram á þriðjudag mun ég fá þrjár máltíðir sendar upp á herbergi á dag og má fara tvisvar út að hlaupa. Mér finnst þetta smá þrúgandi, en viðbrögð vinkvenna minna minna mig á ömmu. Þó þær eigi ekki jafnmörg börn og amma og njóti nútíma þæginda á borð við barnafataverslanir og þvottavélar hljómar fimm daga sóttkví eins og paradís fyrir margar þeirra. Þær dreymir um að þurfa ekki að vera á stöðugum skutlrúntum, finna upp á matseðli fyrir fjölskyldunna, versla, elda og ganga frá, skipuleggja og framkvæma þrif, leita, redda, svara, snýta smábörnum og vaka eftir unglingum svo örfá verkefni séu nefnd – eftir að hafa lokið fullum vinnudegi, stundað líkamsrækt og mögulega troðið einhvers staðar inn hálftíma „me-time“ af skyldurækni til að halda geðheilsu.
Í jafnréttisparadísinni á Íslandi vinna konur um 70% mældrar vinnu inni á heimilum. Þá er sú ómælda ekki talin með, s.s. fjarstýring fjölskyldunnar, skipulag sumarfría, jólagjafainnkaup, fjáraflanir fyrir íþróttafélög og viðbrögð og aðstoð vegna stærri áfalla eða veikinda í fjölskyldum. Konur vinna samt næstum jafnlanga launaða vinnuviku og karlar. Þetta er stundum kallað andleg byrði eða tilfinningavinna (e. mental load/emotional labour). Ég mæli mjög með þessari teiknimyndasögu sem útskýrir fyrirbærið einkar vel.
Ég er 47 ára. Ég á fjórar vinkonur sem hafa dottið út af vinnumarkaði í lengri eða skemmri tíma vegna kulnunar. Konur sem allar eiga það sameiginlegt að vera eldklárar og harðduglegar, í krefjandi störfum, eiga stálpuð börn og veika foreldra eða aðstandendur. Þær hafa verið undir allt of miklu álagi í allt of langan tíma. Tveir þriðju hlutar þeirra sem leita til VIRK starfsendurhæfingar vegna kulnunar eru konur.
Við verðum að jafna ábyrgðina í samfélaginu. Fólk á ekki að þurfa að láta sig dreyma um sóttkví, hvað þá fangelsi. Fólk á að geta unnið viðráðanlegan vinnudag á almennilegum launum, notið samvista við fjölskyldur sínar og reitt sig á heilbrigðis- og velferðarkerfið vegna öldrunar og veikinda.
Það þarf samt mjög mikið að breytast. Launuð vinnuvika þarf að styttast bæði hjá körlum og konum. Karlar þurfa að axla ábyrgð á heimilum, líka á óskilgreindu tilfinningavinnunni, fjarstýringunni og skipulaginu. Og síðast en ekki síst þarf heilbrigðis- og velferðarkerfið að hætta að reiða sig á ólaunaða vinnu kvenna við umönnun veiks og aldraðs fólks.
Við getum öll lagt okkar af mörkum. Atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólk getur skipulagt styttri launaða vinnuviku. Karlar geta lært, hlustað og lagt sig fram um að axla meiri ábyrgð heima. Og við getum öll haft áhrif á kerfið og þjónustu þess í lýðræðissamfélagi með því að tala skýrt og þrýsta á um breytingar, sérstaklega núna í aðdraganda kosninga.
Sjálf ætla ég að einbeita mér að því að þrauka sóttkvínna í bili. Hugsa til ömmu og vinkvenna minna og njóta þess að horfa soldið út í loftið.
Bestu kveðjur og góða helgi,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl