Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Daði og Gagnamagnið stóðu sig frábærlega í gær, voru æðisleg í heimatilbúnu grænu herbergi og tókust á við uppákomur lífisins af aðdáunarverðu æðruleysi. Það hefði svo sem dugað mér – en annað í keppni gærkvöldsins vakti mig til umhugsunar.
Keppnin hófst með stórkostlegu atriði frá breikdansaranum Redo. Eftir því sem leið á atriðið vakti líkamsgerð Redo athygli mína, fyrst sá ég að hendin á honum var óvenjuleg og seinna tók ég eftir að hann var með gervifót. Þetta breytti viðhorfi mínu til atriðisins. Þetta var ekki lengur dansatriði. Þetta var dansatriði með fötluðum dansara.
Af hverju skipti það máli? Af hverju breyttist upplifunin? Var þetta ekki dansatriði eftir sem áður?
Vissulega, en dansatriðið uppfyllti ekki mínar fyrirfram mótuðu hugmyndir um dansara. Ég fór að dást að því með öðrum hætti. Hugsaði um hvað Redo væri duglegur og frábær dansari þrátt fyrir fötlunina og hvað það væri gott að Eurovision sýndi fjölbreytileika með þessum hætti. Rétt eins og hvort tveggja væri ekki sjálfsagt.
Þessi viðbrögð mín voru til marks um undirliggjandi ómeðvitaða fordóma sem ég hef gagnvart fötluðu fólki.
Þessi hugleiðing er alls ekki hvatning til ykkar um að hætta að hugsa um líkamsgerð. Fötlunarblinda er ekki betri en kynblinda eða litblinda, sem byggja á blekkingunni um að öll hafi jöfn tækifæri. Þvert á móti mæli ég með því að við rýnum í ómeðvituðu hlutdrægnina okkar og veltum fyrir okkur hvaða áhrif hún hefur á hugsanir okkar, skoðanir og dóma. Ég mæli eindregið með prófunum á þessari síðu í ómeðvitaðri hlutdrægni.
Af hverju veitum við því athygli að dansari sé fatlaður, að forstjóri sé kona eða að þingmaður sé hommi? Við setjum litla eða enga fyrirvara við fólk sem uppfyllir staðalmyndir og höfum tilhneigingu til að dæma venjulegt fólk sem gott, flinkt og hæfileikaríkt. Á sama tíma erum við líkleg til að efast um og jafnvel afskrifa fólk sem ekki fellur að staðalmyndum.
Það er út af þessu sem við þurfum stöðugt að vanda okkur. Passa að hygla ekki venjulegu fólki umfram fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Aðeins þannig getum við brotið upp staðalmyndir og stuðlað að sanngjarnari heimi.
Njótið hvítasunnunnar og Eurovision. Áfram Daði og Gagnamagnið!
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl