Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ENN AF HATURSORÐRÆÐU
Enn eina ferðina er nauðsynlegt að fjalla um hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Tilefnið að þessu sinni er Facebook-færsla Hrafnhildar Ming Þórunnardóttur, þar sem hún lýsir áreitinu sem hún verður fyrir í sínu daglega lífi fyrir það eitt að vera ekki í íslensku sauðalitunum.
Hrafnhildur var ættleidd af íslenskri hvítri móður frá Kína þegar hún var eins árs. Þrátt fyrir að muna ekki eftir neinu öðru en uppvexti í íslensku samfélagi verður hún reglulega fyrir aðkasti vegna útlits síns. Í færslunni lýsir hún því hvernig fólk geltir ítrekað að henni á förnum vegi, kallar hana apa og ávarpar hana á ensku. Þetta aðkast er ekki ósvipað því sem hinsegin fólk hefur lýst. Hvort tveggja á rætur sínar að rekja til andúðar gagnvart fólki sem ekki fellur að gamaldags viðmiðum valdakerfisins.
HVAÐ ER ÞETTA?
Í færslunni lýsir Hrafnhildur þreytunni sem fylgir því að bera ábyrgð á að útrýma rasisma. Þreytunni yfir að þurfa að standa í síendurteknum skrifum um nýjustu birtingarmyndir rasisma, yfir að þurfa stöðugt að svara fordómunum og að ekki síst yfir að þurfa að sitja undir óumbeðnum ráðum frá hvítu fólki um hvernig hún eigi að bregðast við.
Besta ábendingin í færslu Hrafnhildar er þó til gerendanna. Hún leggur til að í staðinn fyrir að þau gelti út fordómum sínum gagvart melantónínmagni í húð, segi þau bara hreint út að þau séu rasistar. Þetta er nefnilega hvorki fyndið né saklaust, heldur alvarleg og skaðleg hegðun. Þó Hrafnhildur hafi skráp og sjálfstraust til að hrista þetta af sér á það ekki við um allt fólk sem fyrir þessu verður.
ÁBYRGÐ OKKAR
Við sem erum í sauðalitunum getum dregið fjölda lærdóma af færslu Hrafnhildar. Við þurfum að horfast í augu við ábyrgð okkar á rasisma. Það er okkar að útrýma honum. Við, hvíta fólkið, þurfum að breyta hegðun okkar. Við þurfum að vera duglegri.
Við þurfum að vera duglegri að mennta okkur sjálf. Internetið er stútfullt af fræðsluefni um öráreitið sem við beitum gagnvart svörtu og brúnu fólki. Ég mæli sérstaklega með vídeóum um öráreiti hér, um fáránleika þess að halda að öráreiti geti verið öfug hér, og svo geggjaðri vitundarvakningu sem nemendur Harvard háskóla stóðu fyrir undir myllumerkinu #itooamharvard.
Við þurfum vera duglegri að hafa áhrif á hegðun annarra. Við þurfum að bregðast við rasisma þegar við verðum vitni að honum, við þurfum að ræða hann oftar, bæði um ástæður hans og afleiðingar.
Við þurfum að vera duglegri að rýna í starf okkar og áhrif þess á stöðu fólks. Við þurfum að stuðla að því að vinnustaðurinn okkar sé opinn, aðgengilegur og inngildandi og að þar sé hægt að taka á öllum birtingarmyndum rasisma sem upp kunna að koma.
Við þurfum að vera duglegri að kjósa gegn rasisma. Við þurfum að kjósa fólk og flokka með trúverðuga stefnu um að samfélagið sé fyrir okkur öll og við þurfum að kjósa fólk og flokka sem er líklegt til að standa með stefnunni sem þau segjast hafa, líka eftir kosningar.
Öxlum ábyrgð. Verum duglegri.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl