Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


GREINING VIKUNNAR: HÆTTUM AÐ GASLÝSA VALDAKERFIÐ


Stundum langar mig að taka kynjagleraugun af mér og henda þeim. Gaslýsa sjálfa mig og hætta þessum samsæriskenningum. Þetta séu bara tilviljanir sem hefðu svo auðveldlega getað verið öðruvísi.


Það gerðist síðast á þriðjudaginn þegar ég horfði á kvöldfréttir í hollenska sjónvarpinu. Fyrst kom frétt um nýjustu nóbelsverðlaunahafana. Tvo karla sem hafa gert eitthvað svakalega merkilegt. Næsta frétt fjallaði um samstarfsverkefni lögregluyfirvalda í sex ríkjum sem gengur út á að bera kennsl á 46 konur sem hafa fundist myrtar víðsvegar um Evrópu á undanförnum áratugum. Þá hugsaði ég: Karlar fá verðlaun, konur eru myrtar.


SAMSÆRISKENNING?


Eins og svo oft áður, fór ég í gegnum möguleikann á því að þetta væri nú bara rugl, ég þyrfti að hætta að vera með kyn á heilanum. Konur væru bara búnar að vera svo stutt í akademískum rannsóknum og karlar væru vissulega myrtir líka.


Auðvitað er hægt að skýra sig frá þessu, alveg eins og það er hægt að rökstyðja kynbundinn launamun og sýknudóma yfir nauðgurum. En við verðum að hætta því. Opna augun og horfast í augu við kerfisbundna mismunun sem byggir á því að upphefja löngu úrelt gildi á borð við hörku og hetjudýrkun á meðan litið er á samkennd og samviskusemi sem veikleikamerki.


NÓBELSVERÐLAUNIN


Innan akademíunnar fá konur að jafnaði færri og smærri styrki en karlar. Um verðlaun og viðurkenningar gildir það sama, en árið 2023 höfðu 65 konur og 905 karlar hlotið Nóbelsverðlaun. Sérstakt hugtak, Nóbelshugarfar, hefur verið búið til um þetta fyrirbæri, en það gengur út á að að upphefja rannsóknir með langsótt og lítið skilgreint samfélagslegt mikilvægi en meta hagnýtar rannsóknir minna. Vart þarf að taka fram að karlar eru mun fjölmennari í fyrri flokknum og konur í þeim seinni.


Þetta er nefnilega ekki vegna þess að konur séu nýkomnar í akademíuna. Konur hafa verið í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum í yfir 40 ár. En hafa ekki uppskorið í samræmi við það.


MORÐ OG OFBELDI


Morð eru líka kynbundin. Konur eru eiginlega alltaf myrtar af körlum og oftast af körlum sem þær tengjast eða hafa tengst fjölskylduböndum. Morðin eiga sér langoftast aðdraganda, eru til komin vegna meints eignarhalds karlsins á konunni og marka endi á lengri ofbeldissögu. Karlar eru vissulega myrtir líka, í meira mæli en konur og oftast af körlum en það er af fjölbreyttari ástæðum og við ólíkar aðstæður.


Við þetta bætist svo að þegar ofbeldi beinist gegn konum virðist það tekið síður alvarlega en þegar það beinist að körlum. Óupplýstu kvenmorðin eru ljóstasta birtingarmynd þessa sinnuleysis, en sýknudómar yfir nauðgurum, niðurfelling kynferðisbrotamála og afskiptaleysi lögreglu vegna heimilisofbeldis eru einkenni á rétterkerfi sem konur hafa litla ástæðu til að treysta.


SEGJUM ÞAÐ UPPHÁTT


Akademían og réttarkerfið eru bæði hluti af kynjuðu valdakerfi. Þau gera greinarmun á fólki eftir kyni, stétt og stöðu. Nóbelshugarfarið gerir það að verkum að karlar þykja að jafnaði gera merkilegri hluti en konur.


Hannúðin gerir það að verkum að hvítir, íslenskir, ríkir, sætir og/eða frægir karlar eru sjaldnar dæmdir fyrir ofbeldi en sanngjarnt þykir og drusluskömmunin gerir það að verkum að konur eru ekki teknar alvarlega. Allra síst ef þær eru brúnar, svartar, útlenskar, fatlaðar eða tilheyra öðrum jaðarsettum hópum. Allt er þetta ósanngjarnt og löngu úrelt.


Þessi hugleiðing var til að stappa í sjálfa mig stálinu og ýta kynjagleraugunum ofar á nefið. Við verðum að þora að greina, rýna og tala um meinsemdir hins kynjaða valdakerfis. Öðruvísi breytist ekkert.


Bestu kveðjur,


Sóley



Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: