Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: Í MINNINGU BERITAR ÅS
Berit Ås lést í vikunni, 96 ára gömul. Hún var stundum kölluð ljósmóðir norsku kvennahreyfingarinnar, en var einhvern veginn ennþá meira en það. Berit var stjórnmálakona, prófessor og aktívisti. Hún var virk í baráttu fyrir friði, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti, og var auk þess einhver skarpasti femínisti samtímans.
BRAUTRYÐJANDINN BERIT
Berit var langt á undan sinni samtíð og ögraði stöðugt ríkjandi hugmyndafræði á öllum sviðum. Hún rýndi og greindi og var óhrædd við að leggja til breytingar. Hún var farin að stunda kvennafræðirannsóknir um 1970 og stofnaði kvennaháskóla í Osló árið 1983. Hér á Íslandi var ekki byrjað að kenna kvennafræði fyrr en árið 1996.
Sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Asker, tók Berit þátt í kvennabyltingu í sveitarstjórnarkosningunum 1971, þegar konur höfðu fengið nóg af fálæti gagnvart málefnum kvenna og barna. Þær tóku sig saman um að strika karla út af listum og færa konur ofar á lista. Það lukkaðist ljómandi vel, konur urðu meirihluti kjörinna fulltrúa í Osló, Þrándheimi og Asker og miklu fleiri en nokkru sinni í öðrum sveitarfélögum Noregs.
Áhrif Beritar á Íslandi hafa fyrst og fremst verið í gegnum drottnunaraðferðirnar fimm, sem ég hef áður skrifað um. Þó bókin um drottnunaraðferðirnar hafi komið út fyrir 46 árum eru þær enn gulls ígildi, þar sem þær hjálpa konum og jaðarsettu fólki að greina, afhjúpa og ræða um óformlega mismunun valdakerfisins. Fyrir það hafði hún gefið út bókina Kvinner i alla land, sem er ófáanleg í dag en ég gæfi mikið fyrir að lesa.
MANNESKJAN BERIT
Berit kom til Íslands árið 2011 þegar hún hlaut viðurkenningu Stígamóta fyrir brautryðjendastarf sitt. Þá hélt hún fyrirlestur um drottnunaraðferðirnar í Norræna húsinu, eftir að búið var að hafa upp á forláta myndvarpa til að hún gæti sýnt handskrifuðu glærurnar sínar.
Daginn eftir kom hún í kaffi heim til mín, þar sem hún hitti allar róttækustu vinkonur mínar. Það var stund sem engin okkar mun gleyma. Ekki bara af því hún var sagði svo skemmtilegar sögur, var svo hvetjandi og full af eldmóði, heldur var þetta morguninn þar sem allur vinkvennahópurinn þagði svo klukkutímum skipti. Við sátum bara andaktugar, þegjandi, með stjörnur í augum og meðtókum allt það sem konan hafði að segja.
Seinna fór ég svo með mömmu í heimsókn til Beritar í Asker. Heimili hennar minnti einna helst á Sjónarhól, þar úði og grúði af pappírum, pólítískum varningi og alls kyns mjög merkilegu dóti. Þar áttum við dýrmætt spjall um ósanngirni heimsins og leiðir til að laga.
ÁHRIF BERITAR TIL FRAMTÍÐAR
Verk Beritar munu alltaf hafa áhrif. Hún hefur valdelft, styrkt og stutt við konur og jaðarsett fólk svo um munar. Hún hefur búið til tæki fyrir okkur til að greina og nota gegn karllægri mennningu, hún hefur stuðlað að breytingum og byltingum sem eiga að vera okkur innblástur á hverjum degi. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir þetta allt saman og heiti því að sofna ekki á verðinum frekar en Dukke-Lise í ljóðinu hér að neðan.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl