Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
NÝJUNG VIKUNNAR: HLAÐVARP UM FJÓRÐU VAKTINA
Undanfarna viku höfum við fylgst með umfjöllun um fimm sterkar konur. Sara Björk Gunnarsdóttir sagði frá þeim erfiða slag sem hún þurfti að taka fyrir sjálfsögðum mannréttindum, Edda Falak lýsti áreitinu og hótununum sem hún hefur orðið fyrir sem femínískur aktívisti, dónaskapur framleiðenda gagnvart Dóru Jóhannsdóttur, leikstjóra áramótaskaupsins var afhjúpaður, klámfenginni fyrirsögn í Viðskiptablaðinu var ætlað að niðurlægja Kristrúnu Frostadóttur og Jacinda Ardern tilkynnti um brotthvarf úr stjórnmálum, enda væri tankur hennar tómur eftir sex ár sem forsætisráðherra Nýja Sjálands.
Það er í raun fátt sem þessar konur eiga sameiginlegt – annað en að ögra feðraveldinu. Og vera refsað fyrir vikið. Sæta tíðari, harðari og persónulegri gagnrýni en karlkyns kollegar þeirra hefðu sætt við sömu aðstæður.
FJÓRÐA VAKTIN
Ég hef einu sinni áður skrifað um fjórðu vaktina hér. Vaktina sem kemur á eftir þeirri fyrstu (launavinnu), annarri (skilgreindum og sýnilegum heimilisstörfum) og þriðju (skipulag og umsjón með fyrstu og annarri vaktinni). Vaktina sem snýst um að knýja fram betra og sanngjarnara samfélag.
Framfarir í jafnréttismálum hafa nefnilega aldrei orðið að sjálfu sér. Allar framfarir hafa orðið af því að hugrakkar konur stigu fram og töluðu, skilgreindu, fræddu, ræddu og kröfðust breytinga. Og það gerðu þær þegar þær voru búnar að vinna launavinnu, sinna heimilinu, skipuleggja fjölskyldulífið og tryggja að öllum liði bærilega í kringum þær.
Sara Björk, Edda, Dóra, Kristrún og Jacinda hafa allar beitt sér fyrir betra samfélagi, hver á sínu sviði. Mörg okkar dást að þeim og styðja, en þær mæta samt sem áður mótlæti sem enginn karlkyns kollega þeirra hefði getað látið sér detta í hug.
HLAÐVARP
Í febrúar ætlum við Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og aktívisti, að leiða saman hesta okkar í hlaðvarpi sem á að fjalla um nákvæmlega þetta. Við ætlum að greina jafnréttisumræðuna, fjalla um persónur og leikendur og reyna að setja atburði líðandi stundar í samhengi við valdakerfið og sögu þess. Markmiðið með podcastinu er að stuðla að upplýstri umræðu um jafnréttismál, þar sem sjónum er beint að valdakerfinu og þeim aðferðum sem það beitir til að viðhalda sér.
ÞANGAÐ TIL ÞÁ
Ég mun að sjálfsögðu auglýsa þættina hér í hugleiðingunum þegar þar að kemur. En þangað til þá legg ég til að við vöndum okkur við að standa með ofangreindum konum – og öllum hinum sem eru að ögra ríkjandi valdakerfi, krefjast áheyrnar, inngildingar og réttinda. Þær þurfa á okkur að halda.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl