Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
Í ár fór minna fyrir kvennafrídeginum en oft áður. Konur og kvár mættu til vinnu og afköstuðu eins og venjulega þrátt fyrir að kynbundinn launamunur hafi aukist milli ára og greina megi bakslag á mörgum sviðum þegar kemur að réttindum og frelsi kvenna, kvára og jaðarsetts fólks. Andúð gegn hinsegin fólki, flóttafólki og almennt öllum þeim sem ekki falla að viðmiðum samfélagsins eykst, ekki síst fyrir tilstuðlan stjórnmálafólks og frambjóðenda sem ala á aðgreiningu og misskiptingu í stað samkenndar og inngildingar.
Þó ekki hafi verið skipulagt kvennafrí í gær, tóku 34 samtök saman höndum og afhentu forsvarsfólki stjórnmálaflokka kröfugerð um það sem þarf að laga í íslensku samfélagi. Að afhendingu lokinni var heimildarmynd um kvennaverkfallið 1975 frumsýnd. Áhorfendur grétu, hlógu, nutu og valdelfdust yfir krafti, gleði, húmor og áræðni kvennanna sem skipulögðu daginn. Myndin verður sýnd eitthvað áfram og er sannarlega þess virði að smella sér í bíó.
KVENNAÁRIÐ 2025
Þessi sömu samtök lýstu því yfir að árið 2025 yrði kvennaár. Þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stjórnvöld kæmu til móts við þessar eðlilegu og löngu tímabæru kröfur og að 50 ára afmæli fyrsta kvennaverkfallsins yrði stórt. Það er löngu tímabært að virði kvennastarfa verði endurmetið með kerfisbundnum hætti, að samfélagið hætti að reiða sig á ólaunaða vinnu kvenna og að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt með markvissum aðgerðum.
VIÐ GETUM ÖLL
Við þurfum að leggja okkur fram um að breyta samfélaginu. Sum okkar hafa stöðu, vald eða umboð til að breyta í þágu kvenna, kvára og jaðarsetts fólks. Stjórnmálafólk, stjórnendur og annað áhrifafólk gæti lagt þyngri lóð á vogarskálar jafnréttis og inngildingar. Við hin getum líka lagt okkur fram. Brotið upp staðalmyndir, dregið úr öráreitum, lært, breyst og aðlagast fjölbreyttu samfélagi. Síðast en ekki síst getum við nýtt kosningaréttinn. Kosið fólk sem leggur áherslu á jafnrétti, inngildingu og félagslegt réttlæti og kosið gegn rasisma, kvenfyrirlitiningu og útilokun.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl