Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGTAK VIKUNNAR: PÓLÍTÍSKT HUNDAFLAUT

Í vikunni spurði ég vini mína á Facebook hvort nýtt slagorð Samfylkingarinnar, „sterk velferð, stolt þjóð“, væri rasískt hundaflaut eða viðeigandi slagorð jafnaðarmannaflokks. Vinir mínir voru ekki á einu máli. Sum töldu þetta klassíska hundaflautu, önnur spurðu hvað væri rangt við þetta, enn önnur vörðu slagorðið og einhver ítrekuðu óþol sitt gagnvart greiningum mínum. Miklar umræður sköpuðust á fleiri samfélagsmiðlasíðum, þar sem alls konar fólk kvartaði undan ritskoðunartilburðum og pólítískum rétttrúnaði.


SKILGREINING


Hundaflautur gefa frá sér hátíðnihljóð sem hundar heyra vel en fólk alls ekki. Hugtakið pólítískt hundaflaut vísar í þetta tæki. Það er notað yfir pólítísk skilaboð sem eru dulbúin þannig að það nái til rétts markhóps án þess að annað fólk verði þeirra vart. Pólítískt hundaflaut hefur verið stundað lengi, sérstaklega til að ala á útlendingaandúð, án þess að hægt sé að sýna fram á hreinan rasisma í orðum eða gjörðum þeirra sem það nota.


GREINILEGT HUNDAFLAUT


Umræðurnar á Facebook eru til marks um að slagorðið sé ansi vel lukkað hundaflaut. Það má nefnilega lesa það á margan hátt. Hvítt íslenskt fólk getur leyft sér að einblína á sakleysislega fegurð orðanna stolt og þjóð. Fólk sem á aðrar rætur og hefur ástæðu til að óttast útilokun vegna uppruna og/eða litarhafts finnur fyrir óhugnarleika orðanna þegar þau eru sett saman með þessum hætti. Eðlilega skapast hjá því hugrenningartengsl við orðanotkun og áherslur þjóðernispopúlista á velferð eigin þegna, þjóðarstolt og útlendingaandúð.


Gleymum því ekki að slagorð detta ekki af himnum ofan. Þetta er vandlega ígrundað af fólki sem veit og skilur mikilvægi réttu samsetningarinnar. Það hefði vel verið hægt að hafa slagorð á borð við „Sterk velferð – sterkt samfélag“ en niðurstaðan varð stolt þjóð. Það væri forvitnilegt að heyra í höfundunum um það sem fór fram á hugmyndafundum og hvernig þau komust að þessari niðurstöðu.


ER SAMFYLKINGIN AÐ ELTA MIÐFLOKK OG SJÁLFSTÆÐISFLOKK?


Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna er opinberlega rasískur, þó rasískar áherslur sé víða að finna og flokkarnir leggi misríka áherslu á jafnrétti, mannréttindi og inngildingu.


Miðflokkurinn er sá flokkur sem hefur gengið lengst í útlendingaandúð. Þeirra áherslur hófust með hundaflautuaðferðum en í dag tala fulltrúar flokksins opinberlega með niðrandi og útilokandi hætti um útlendinga og flóttafólk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig gengið langt, en orðræða Sjálfstæðisfólks um sprungna innviði og ólöglega innflytjendur er of augljós til að teljast hundaflaut.


Samfylkingin hefur í gegnum tíðina kennt sig við jafnaðarstefnu, velferð og félagslega réttláta alþjóðastefnu. Fálæti þeirra gagnvart harðlínustefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum fólks á flótta hefur því komið á óvart undanfarin misseri og nú þegar þetta nýja slagorð er komið í loftið er ekki skrítið að fólk spyrji sig spurninga.


KOSNINGAR FRAMUNDAN


Það er full ástæða til að vera gagnrýnin á dulbúin skilaboð stjórnmálaflokkanna og skoða vel hvaða stefnu þeir bjóða upp á í jafnréttis-, mannréttinda og inngildingarmálum. Sjálf tel ég enga þörf á flokkum sem leggja áherslu á þjóðarstolt, hvorki vegna velferðar né annarra hluta. Við núverandi aðstæður er miklu mikilvægara fyrir samfélagið að fagna fjölbreytileikanum, takast á við þær áskoranir sem honum fylgja og njóta ávaxta hans í þágu okkar allra. Það verður spennandi að sjá áherslur flokkanna í þessum efnum fram að kosningum, hver veit nema fleiri hugleiðingar eigi eftir að spretta upp úr þeim.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: