Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: HINN HÆFILEGI LEIKSKÓLI

Enn á ný sprettur nú upp umræðan um að börn séu allt of lengi á leikskólum. Að foreldrar leggi allt of langa „vinnudaga“ á börnin sín. Það sé mikilvægt að grípa til aðgerða svo foreldrar átti sig og forgangsraði með öðrum hætti.


HRÆSNI SVEITARFÉLAGANNA

Umræðan í dag er vegna ákvörðunar Kópavogsbæjar um að snarhækka leikskólagjöld undir þeim formerkjum að fyrstu 6 klukkustundirnar verði fríar en hinar 2-3 séu fokdýrar. Ákvörðun sem fyrst og fremst snýst um tekjuöflun til að mæta auknum útgjöldum bæjarins, en er rökstudd með hugmyndafræði frá fornöld. Sama umræða átti sér stað þegar Reykjavíkurborg stytti opnunartíma leikskólanna í hagræðingarskyni fyrir nokkrum misserum en rökstuddi það með eftiráskýringum um velferð barna.

Í bæði skiptin var sjónum beint að foreldrunum, látið að því liggja að þau séu löt, kunni ekki að forgangsraða eða þurfi bara að vera duglegri með einhverjum hætti. Þessu hefur verið svarað með þeirri einföldu staðreynd að full vinna kallar á 7,6 tíma vinnudag á almennum vinnumarkaði og fólk nær illa endum saman án tveggja fyrirvinna í nútímasamfélagi. Sýnt hefur verið fram á að aðgerðir þessara tveggja sveitarfélaga komi sér verst fyrir lágtekjufólk sem ekki hefur sveigjanleika í vinnu, fyrir konur sem séu líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar út af launamuni kynjanna, og svo fyrir orðræðuna almennt af því hún sé til þess fallin að styrkja mæðrahyggju og ákafa mæðrun sem nóg sé af fyrir.


ÞRENNT SEM ÉG VIL BÆTA VIÐ

1.

Vinnudagur barna á ekki að vera til sem konsept. Börn eru á leikskólum, þar sem fagfólk skipuleggur daginn og þar sem börn eiga að fá hæfilega blöndu af leik, menntun og hvíld. Ef börnin eru þreytt að þeim degi loknum, er þá ekki ágætt að auka hvíldina í dagsskipulaginu? Að styrkja leikskólana og starfið þar í stað þess að foreldrar sæki börnin til þess eins að koma þeim fyrir í ófaglegri pössun við alls konar aðstæður annars staðar.


2.

Ég er mikil talskona styttingar vinnuvikunnar. Ég talaði fyrir fyrsta tilraunaverkefni borgarinnar sem varð svo að því sem verið er að gera um allt land í dag. Vinnuvikan er allt of löng en styttingin verður að fara fram á vinnumarkaðnum sjálfum. Það eru atvinnurrekendur sem þurfa að forgangsraða öðruvísi – ekki foreldrarnir. Og ef sveitarfélögunum tveimur er svona umhugað um velferð barna ættu þau að taka stærri skref í þá átt sem atvinnurekendur í stað þess að hagræða á kostnað barnafjölskyldna.


3.

Mæðrahyggjan. Það er mjög áhrifaríkt að tönnlast á því að eitthvað sé „börnunum fyrir bestu“ og ala á sektarkennd foreldra (lesist mæðra) en það gerir ekkert annað en færa okkur aftur um áratugi í jafnréttismálum. Foreldrar eru að gera sitt besta og ef það er ekki nóg, þá þurfum við að skapa innviði sem styðja betur við þau. Leikskólarnir bjóða öllum börnum upp á jafngóðar aðstæður.
Svo vitum við líka öll að foreldrar eru allskonar og það er einfaldlega ekki öllum börnum fyrir bestu að vera lengi heima hjá sér. Leikskólarnir eru jöfnunartæki, þar eiga öll börn að upplifa örugga, góða, faglega menntun í bland við hvíld og leik.


STÖNDUM VÖRÐ UM LEIKSKÓLANA

Það er nóg komið af því að sveitarfélögin setji fram tekjöflunar- eða hagræðingartillögur undir því yfirskini að það sé börnunum fyrir bestu. Leikskólakerfið okkar er frábært (þó vissulega sé margt sem gera má betur), en andstaðan er stöðug og við vitum að allar framfarir eru viðkvæmar. Það er alltaf hætta á að framfarir verði teknar til baka, réttindi afnumin eða þjónusta lögð niður. Þess vegna er mikilvægt að muna að leikskólarnir voru hugsaðir sem jöfnunartæki. Þeir eru hannaðir til að þjóna börnum og foreldrum á sama tíma. Það eiga öll börn að eiga kost á góðri menntun við öruggar aðstæður og allir foreldrar eiga að hafa jöfn tækifæri á vinnumarkaði.

Við Þorsteinn V. Einarsson ræddum þennan pistil ítarlega í hlaðvarpinu Fjórða vaktin - en þáttinn má nálgast á síðunni 
www.fjórðavaktin.is


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: