Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


ÁHYGGJUR VIKUNNAR: FJARVISTARSÖNNUN


Það er stundum talað um fjarvistarsannanir í jafnréttismálum. Þessar fjarvistarsannanir eru ekki eins og í hefðbundnum glæpamálum, heldur snúast þær um að geta bent á eitthvað sem er gott eða vel gert sem afsökun fyrir að aðhafast lítið sem ekkert að öðru leyti. Fjarvistarsannanir eru algengari og fjölbreyttari en við höldum og stundum grunar mig að sjálf gegni ég þessu hlutverki af og til á vinnustöðum.


DÆMI


Ein algengasta fjarvistarsönnunin er þegar kynjahlutföll eru leiðrétt hjá fyrirtækjum, en með því að fá inn konur sem eru svo vel aðlagaðar að karllægri menningu og/eða með svo lítil raunveruleg völd að starfsemin breytist ekki neitt. Önnur algeng fjarvistarsönnun er þegar búin er til framsækin og ítarleg jafnréttisstefna sem ekki er innleidd. Stundum er friðþæging og/eða ímyndarsköpun eini hvatinn á bak við slíka stefnumótun. Enn eitt dæmið eru svo aðgerðir sem rifjaðar eru upp í hvert skipti sem gerð er krafa um eitthvað sem tengist jafnrétti og fjölbreytileika.
 

FRÆÐSLA SEM FJARVISTARSÖNNUN


Sjálf hef ég komið að ráðgjöf og fræðslu á ansi mörgum vinnustöðum og stundum líður mér beinlínis eins og fjarvistarsönnun. Eins og fyrirtækin geti ekki beðið eftir að segja frá því að þau hafi fengið sjálfa Sóleyju Tómasdóttur til að fræða þau um jafnréttismál, að þar með séu þau öll útlærð og vinnustaðarmenningin inngildandi í hvívetna.
 

Það er út af þessu sem ég legg ríka áherslu á að flækja málin og ögra fólki í vinnustaðafræðslum. Benda á að sú algenga nálgun að leiðrétta kynjahlutföll og fá inn fyrirlestra öðru hverju sé ekki nóg, þátttakendur þurfi að nýta það sem þau læra og það þurfi að fara í gegnum alla starfsemi allra fyrirtækja ef okkur er alvara með inngildingu á vinnumarkaði.


HVAÐ ÞÁ?


Ég er svo sem viss um að námskeiðin mín hafi einhver áhrif. Þau skapa sameiginlegan þekkingargrunn hjá þátttakendum, styrkja áhugasamasta fólkið og draga oftast úr neikvæðni þeirra allra íhaldssömustu. Þau eru samt bara pínulítill hluti af lausninni. Inngildingu verður aldrei náð að fullu, við verðum aldrei útlærð í fjölbreytileikafræðum og hegðun, ferlar, venjur, viðmið og gildi verða að vera í stöðugri endurskoðun.

Við þurfum að horfast í augu við eigin breyskleika, bregðast við breyskleika annars fólks, læra ótal flókin og óaðlaðandi hugtök, greina flókna hluti, breyta rótgrónum hefðum, prófa skrítna hluti, gera óþægileg mistök, virða hluti sem við skiljum ekki og breyta fullt af hlutum sem okkur finnst hafa virkað vel.
 

RÁÐGJÖF


Uppáhaldsviðskiptavinir mínir eru vinnustaðir sem ég hef heimsótt oft. Ekki af því að ég græði svo mikið á því, heldur eru það vinnustaðir sem vilja halda áfram að læra, rýna og láta ögra sér. Innkomur mínar eru með ýmsum hætti, stundum með reglulegum styttri fyrirlestrum, umræðufundum eða ráðgjöf í einstaka verkefnum.

Nú er ég að byrja að bjóða upp á fasta samninga. Í þeim felst aðgengi að mér í 6 tíma á mánuði sem nýta má í hvers kyns rýningu eða ögrun, en betri útgáfum samninganna fylgja gátlistar og uppteknir fyrirlestrar sem hægt er að nota í daglegri starfsemi. Á heimasíðu Just Consulting er hægt að
 lesa meira um þessa nýjung.

Þessi ráðgjöf er ekki eina rétta svarið, þó ég sé reyndar viss um að hún sé frábær fyrir alla vinnustaði. Þið getið líka leitað ráðgjafar annars staðar eða beitt öðrum leiðum til að ögra og rýna í hefðir, venjur, ferla, viðmið og gildi. Aðalmálið er að hætta því aldrei af því að viðfangsefnið er endalaust. Því miður segja sum – sem betur fer segi ég. Af því þó það sé erfitt og flókið, þá er það líka skemmtilegt og bætandi fyrir okkur öll.
 
Bestu kveðjur,
Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: