Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
NÝJUNG VIKUNNAR: BLIND RÁÐNINGAFERLI
Það er frekar langt síðan fólk fór að upphugsa leiðir til að draga úr áhrifum kyns, litarhafts og annarra ómálefnalegra áhrifabreyta í ráðningarferlum. Bandarískar sinfóníuhljómsveitir hafa notað svokallaðar blindar áheyrnarprufur frá því um miðja síðustu öld og fyrirtæki hafa í mörg ár reynt að þróa eyðublöð, ferla og hugbúnað til að fela bakgrunnsbreytur í umsóknum.
Að undanförnu hefur Global Inclusion Online Forum fjallað talsvert um þessa aðferðafræði og segist vera komið með fullkomlega blint ferli frá A til Ö. Þannig á að vera búið að útiloka að kyn, aldur eða húðlitur hafi áhrif á ráðningarnar.
ER ÞAÐ?
Rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif blindra ráðninga, að fleiri komist áfram í ráðningaferlum ef bakgrunnsupplýsingar eru faldar og að hlutfall kvenna og svarts og brúns fólks hafi aukist þar sem aðferðafræðin hefur verið notuð.
Rannsóknir hafa líka sýnt að áhrifin dvína um leið og upplýsingarnar eru afhjúpaðar. Þó lokaúrtak sé mögulega með hærra hlutfall kvenna og jaðarsetts fólks, þá þýði það ekki endilega að þau verði ráðin á endanum. Af því jafnvel þótt ráðningaraðilar séu allir af vilja gerðir og langi til að auka fjölbreytileika á vinnustaðnum, er líklegt að ómeðvituð hlutdrægni leiði til þeirrar niðurstöðu að hið viðtekna sé betra/hæfara/verðmætara en einhver sem er öðruvísi.
HÆTTAN
Það felst ákveðin hætta í blindum ráðningarferlum, hvort sem þau eru ástunduð að hluta til eða í heild. Þau geta orðið að fjarvistarsönnun og þannig komið í veg fyrir að unnið sé með ómeðvitaða hlutdrægni á vinnustaðnum.
Á vinnustöðum sem nota blind ráðningaferli að hluta er hætta á að fólk telji sig ráða málefnalega og útiloki áhrif ómeðvitaðrar hlutdrægni þegar að endanlegri ákvörðun með allar upplýsingar er komið. Jafnvel þótt ráðningarferlin séu blind frá A til Ö eru líkur á að ómeðvituð hlutdrægni hafi áhrif. Þau geta komið fram eftir að manneskjan er ráðin inn, í þjálfun, mati á frammistöðu eða möguleikum á framgangi og þannig haft áhrif á líðan, þátttöku og starfsaldur fólks. Það er nefnilega ekki nóg að ráða inn konur og jaðarsett fólk. Það þarf að tryggja að því líði vel í vinnunni og njóti raunverulegs jafnréttis.
FJARVISTARSÖNNUN
Þess utan er ómögulegt að útiloka áhrif ómeðvitaðrar hlutdrægni, jafnvel þótt allar bakgrunnsbreytur séu faldar. Fólk lýsir kostum sínum og göllum mjög kynbundið, tungumálakunnátta hefur áhrif á gæði umsókna og allskonar menningarbundnir þættir geta skinið í gegnum umsóknirnar. Ómeðvituð hlutdrægni getur líka haft talsverð áhrif á starfslýsingu, kröfugerð og auglýsingu starfsins og laðað þannig að ólíka hópa.
Að líta á blind ráðningarferli sem heildarlausn getur skapað fjarvistarsönnun fyrir allar hinar hætturnar. Að hefðbundnar, útilokandi eða jafnvel mismunandi auglýsingar og ráðningar verði varðar með aðferðafræðinni sem teljist þannig hafa tryggt 100% sanngjarna ráðningu.
HEILDARLAUSNIN
Töfralausnin er því miður ekki til. Það má að sjálfsögðu nota blind ráðningarferli, en við verðum samt að vera stöðugt á varðbergi. Við verðum að vera gagnrýnin á okkur sjálf og vinnustaðarmenninguna okkar þegar við skrifum starfslýsingu, þegar við gerum auglýsingu, þegar við hugum að hæfniskröfum, og þegar við rýnum í þau gögn sem við höfum til að byggja ákvörðunina á. Við verðum að vera auðmjúk gagnvart þeirri staðreynd að við höfum þroskað með okkur ómeðvitaða hlutdrægni allt lífið og við erum snillingar í að þefa uppi allar vísbendingar um viðmið og frávik og byggja ákvarðanir okkar á því. Líka þó við ætlum okkur það ekki.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl