Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
SPURNING VIKUNNAR: HVERNIG GAT ÞETTA GERST?
Hvernig má það vera að Frelsisflokkur Geert Wilders sé allt í einu orðinn stærsta stjórnmálaaflið í Hollandi? Flokkur sem hafnar loftslagsbreytingum af mannavöldum, segir Holland eiga að vera fyrir Hollendinga og hefur það á stefnuskrá að loka landamærunum, banna kóraninn og ganga úr Evrópusambandinu?
Holland hefur fram til þessa talist nokkuð frjálslynt, vestrænt velferðarríki og hollensk stjórnmál hafa haft á sér áru samtals, sáttar og stöðugleika. Frá aldamótum hafa hér verið ríkisstjórnir hægra megin við miðju, þar sem hægriflokkurinn VVD hefur verið í lykilhlutverki og staðið af sér alls kyns skandala og uppákomur.
ÁRAN OG ÓRÓINN
Samtalshefð hollenskra stjórnmála (e. polder model) snýst um að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum, leiða ólík sjónarmið að borðinu og finna ásættanlega málamiðlun. Þetta er vissulega falleg hugmyndafræði, en vekur þó upp spurningar um hvort allar skoðanir eigi alltaf að vera jafn réttháar.
Geert Wilders er nefnilega ekkert spútnikk. Hann hefur setið á þingi frá 1998, þar af fyrir Frelsisflokkinn sem hann stofnaði og er einráður í síðan 2006. Allan þennan tíma hefur hann stundað mjög opinskáa öfgahægripólítík sem hefur sett mark sitt á stjórnmálin og þjóðmálaumræðuna. Þó hann hafi setið á þingi og kjósendahópur hans hafi verið tryggur, þá hefur hann alltaf verið á jaðrinum af því almennt hefur ekki verið samþykkt að boða hreina mismunun, brot á stjórnarskrá, alþjóðalögum og almennum velsæmisreglum svo einhver dæmi séu nefnd.
HVERNIG GAT ÞETTA GERST?
Mamma spurði mig að þessu í gær. Svo svaraði hún sjálfri sér með því að rifja upp samtal við ungverskar og pólskar konur um þeirra fasísku ríkisstjórnir. Þær höfðu útskýrt fyrir henni að svona geti gerst hvar og hvenær sem er. Í öllum löndum Evrópu eru fasísk öfl sem ala á tortryggni, sundrungu og ótta við fjölbreytileika. Þau eru misbeinskeytt og misstór og eiga mismikinn hljómgrunn sem stendur. En það getur breyst hratt.
Wilders hefur alltaf átt dyggan stuðningshóp, þó hann hafi aldrei náð mjög mörgum þingsætum. Í ár jókst fylgið hans ekki fyrr en á síðustu dögunum fyrir kosningar, eftir að leiðtogi hægriflokksins VVD sagðist ekki útiloka stjórnarsamstarf við Wilders. Með því að telja Wilders mögulega stjórntækan veitti hún honum, flokknum hans og stefnu ákveðið réttmæti sem kjósendur virðast hafa gripið fegins hendi.
HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT?
Það sem gerðist í Hollandi í vikunni getur gerst í hvaða landi sem er. Á Íslandi er stjórnmálafólk með stefnu í anda Wilders. Það fólk er enn sem komið er jaðarsett, af því íslenskir kjósendur hafa fram til þessa gert kröfu um ákveðið velsæmi. Við verðum að standa vörð um það. Við megum aldrei samþykkja mismunun, útilokun og óboðlega framkomu öfgahægrisins sem ásættanlega stefnu í stjórnmálum.
Sem einstaklingar í lýðræðissamfélagi getum við öll haft áhrif. Við þurfum að mótmæla hvers kyns mismunun og útilokun og krefjast samkenndar, samstöðu og ábyrgðar af hálfu stjórnmálafólks. Þannig getum við hindrað uppgang rasisma, fasisma og öfgahægris.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl