Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGTAK VIKUNNAR: PICK ME GIRL

Á internetinu er hugtakið „pick me girl“ gjarnan notað um konur sem gera lítið úr kvennabaráttu og öðrum konum til að gera sjálfar sig ákjósanlegri í augum karla. Þó hugtakið hafi ekki verið þýtt á íslensku svo ég viti er það mikilvægt og á því miður oft við á Íslandi sem annars staðar. Markmið pick me konunnar er að sýna fram á að hún sé ekki eins og hinar stelpurnar, hún falli að viðmiðum feðraveldisins um hvernig konur eigi að vera og að hún sé með strákunum í liði. 

Þannig er hugtakið í sinni einföldustu mynd notað yfir stelpur/konur sem leita eftir samþykki og aðdáun karla, en út frá femínísku sjónarhorni getur hugtakið átt við konur, kvár og annað jaðarsett fólk sem leitar eftir samþykki og aðdáun feðraveldisins.

Ég valdi þetta hugtak af því að hér í Hollandi er ein slík kona mjög áberandi í aðdraganda þingkosninga sem fara fram í næstu viku. Dilan Yeşilgöz-Zegerius er nýr leiðtogi hægriflokksins Volkspartij voor Vrijheid en Democratie (VVD) og talin líkleg til að verða næsti forsætisráðherra. Dilan á rætur að rekja til Tyrklands og Kúrdistan, en hún var sjö ára þegar hún, mamma hennar og systir fluttu hingað á forsendum fjölskyldusameiningar.

 
FAGNAÐAREFNI?
 

Dilan gæti orðið fyrsta konan og fyrsta manneskjan sem nýtur alþjóðlegrar verndar í landinu til að verða forsætisráðherra, en það er því miður ekki jafnmikið fagnaðarefni og það hljómar. Hægriflokkurinn VVD er hvorki femínískur né með félagslegt réttlæti fyrir fólk á flótta á sinni stefnuskrá og sjálf hefur Dilan forðast að tala um kyn sitt eða uppruna á opinberum vettvangi. Hún stendur fyrir stefnu sem hefði aldrei samþykkt hennar eigin fjölskyldusameiningu, hún segist aldrei ætla að spila út „kvennakorti“ sem felst að hennar mati í að hvetja fólk til að kjósa hana af því hún sé kona og hún segir „wokeisma“ vera samfélagslegt vandamál.

Í raun er VVD hér að tefla fram kjarnanum í einstaklingshyggjustefnuskrá sinni: frambjóðanda sem á að sanna það að öll geti orðið það sem þau vilja óháð kyni eða uppruna. Dugnaður og aðlögun sé allt sem þarf. 

PICK ME GIRL?


Dilan er ekki eina dæmið um pick me girl, en hún er gott dæmi. Hún vill vera kosin á forsendum feðraveldisins. Hún afneitar þeim hindrunum sem konur og flóttafólk mætir í samfélaginu, að reynsluheimur þeirra hafi áhrif og skipti máli. Fólk getur óhikað kosið hana án þess að óttast að hún muni ögra eða breyta valdakerfinu.

Pick me girls eiga sinn þátt í að viðhalda röngum hugmyndum um jöfn tækifæri (áru kynjajafnréttis) og draga þar með úr trúverðugleika kynjafræðinnar og þeirra sem beita sér fyrir framþróun á sviði jafnréttis, fjölbreytileika og inngildingar.
 

EKKI VERA DILAN


Við höfum öll tilhneigingu til að vera pick me girl. Eða sko, við sem eigum þess kost. Það er nefnilega miklu auðveldara. Það er svo flókið og þreytandi að vera stöðugt að benda á kerfislægt misrétti, útskýra það og krefjast einhvers af fólkinu í kringum okkur. Það er miklu auðveldara að vera þæg en óþæg, að tala fyrir óbreyttu ástandi en nýjungum. Og það er svo miklu þægilegra að hafa feðraveldið með sér í liði en á móti sér.

Reynum samt að vera ekki þannig. Heimurinn þarf á breytingum að halda, við þurfum að horfast í augu við allskonar leiðinlegt og flókið, m.a. þær kerfislægu hindranir sem konur, kvár og annað jaðarsett fólk mætir. Við þurfum að tala um þær, læra af þeim og afmá þær. Gerum það.


Bestu kveðjur,
Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: