Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


SETNING VIKUNNAR: NÚ FÆ ÉG MÉR RÍKISBORGARARÉTT

Ég lét þessi orð falla í frústrasjón yfir kosningaúrslitunum hér í Hollandi í síðustu viku. Hef reyndar ætlað að ganga í þetta mál í allmörg ár. Ég hef búið í Hollandi í sjö ár, tekið virkan þátt í samfélaginu, lagt mitt af mörkum og reitt mig á þjónustu þess. Ég er næstum fullgildur þegn. Það eina sem ég má ekki er að taka þátt í að ákveða hvernig samfélagið er rekið. Af því ég er ekki ríkisborgari.

Þetta fyrirkomulag misbýður réttlætiskennd minni. Það gerði það líka í öll þau 17 ár sem við bjuggum á Íslandi og maðurinn minn hafði ekkert um ráðstöfun skattanna sinna eða sameiginlega grunnþjónustu að segja. Mér finnst að það sama eigi að gilda um þing og sveitarstjórnir, að kosningaréttur sé bundinn við búsetu í landinu í einhvern ákveðinn tíma.

TILKALL (e. entitlement)

Um leið og ég hafði látið orðin falla fann ég marglaga forréttindi hríslast um mig. Mér finnst sjálfsagt að hafa kosningarétt, ekki bara í einu landi heldur tveimur. Mér stendur hann til boða, ég hef bara ekki nennt að standa í skrifræðinu sem fylgir því að afla réttindanna. Ég á þess nefnilega kost að vera ríkisborgari í tveimur löndum.

Ég hef nokkrum sinnum notað hugtakið tilkall (e. entitlement) í skrifum, en aldrei útskýrt það almennilega. Það er eitt af snilldarhugtökum Kate Manne, en tilkall verður til þegar fólk lítur á réttindi sín sem sjálfsögð. Í bókinni 
Entitled fjallar hún um hvernig tilkall karla til aðdáunar, kynlífs, samþykkis, heilbrigðisþjónustu, yfirráðum yfir eigin líkama, þjónustu heima fyrir, þekkingar og valds skaðar konur, kvár og annað jaðarsett fólk.

FORRÉTTINDI OG TILKALL

Fólk sem býr við forréttindi gerir tilkall til þeirra. Sem forréttindakona geri ég tilkall til margs af því sem Kate Manne skrifar um, hluti sem eru alls ekki sjálfsagðir fyrir jaðarsettara fólk. Ég geri ráð fyrir óhindruðu aðgengi að allskonar þjónustu, þekkingu og valdi og dæmi hindranir að þessu sem ósanngjarnar.

Jaðarsett fólk býr við annan veruleika. Fyrir þeim eru hindranirnar hversdagslegar og forréttindin fagnaðarefni. Fatlað fólk gleðst yfir aðgengilegu húsnæði. Kvár gleðjast yfir að mega skrá kyn sitt í þjóðskrá. Heyrnarlaust fólk gleðst yfir túlkun opinberra viðburða. Þegar þau gera kröfur fá þau oft bein og óbein skilaboð um að þau séu vesen eða truflun, valdi kostnaði eða umstangi sem betra væri að losna við. Að kröfur þeirra séu ekki sjálfsagðar.

NÚ FÆ ÉG MÉR RÍKISBORGARARÉTT

Það er fullt af fólki í þessum heimi sem hefur engan ríkisborgararétt. Á Íslandi er fjöldi fólks án allra grundvallar mannréttinda. Fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd vegna raunverulegrar hættu, mannréttindabrota og/eða aðstæðna sem ég get ekki ímyndað mér. Fólk sem hefur um svo ótrúlega margt annað og mikilvægara að hugsa en kosningarétt, hvað þá kosningarétt í tveimur löndum.

Mér ber að umgangast forréttindin mín af ábyrgð, vera meðvituð um að þau eru ekki allra og nýta þau til að afmá sem flestar hindranir valdakerfisins. Þess vegna þarf ég að fá mér ríkisborgararétt. Til að geta kosið fólk sem er til í að breyta valdakerfinu, afmá hindranir þess og stuðla að jafnrétti, öryggi og inngildandi samfélagi.

Bestu kveðjur,

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: