Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


AUKAHUGLEIÐING IV: FRELSIÐ OG ÓGNIRNAR SEM AÐ ÞVÍ STEÐJA

Eins og ég hef ítrekað sagt þá er er skautun ekki áhyggjuefni í samfélaginu. Hugmyndafræðileg skautun er ónefni sem er notað til að gera almenning samsekan með ómálefnalegri umræðu öfgahægrisins.


Samfélagsbreytingar undanfarinna áratuga, þar sem konur hafa farið út af heimilum, hinsegin fólk út úr skápum, fatlað fólk út af stofnunum og flóttafólk úr ömurlegum aðstæðum, hafa auðvitað reynt á. Við erum enn að aðlaga samfélagið að fleiri sjónarhornum, flóknari þörfum og fjölbreyttari nálgunum. Við erum að aðlaga byggingar, verðætamat, menntun og tungumál að breyttum veruleika.


Þessar breytingar eru langt frá því að vera öfgakenndar. Hvorki þær sem hafa orðið, né þær sem óskað er eftir. Þær snúast um að allt fólk hafi tækifæri til virkar þátttöku í samfélaginu, að það geti verið það sjálft, lagt sitt af mörkum og upplifað að það sé metið að verðleikum. Að fólk geti verið frjálst og öruggt.

 

AÐ SKILJA EÐA VIRÐA?


Fjölbreytileikinn er oft bæði flókinn og skrítinn. Ég hef átt erfitt með að skilja mjög margt og ég mun aldrei geta sett mig fyllilega í spor mér jaðarsettara fólks. En ég hef lært ótrúlega mikið af því þrautseiga fólki sem hefur staðið í stafni mannréttindabaráttu fyrir jaðarsetta hópa.


Mikilvægasti lærdómurinn er að ég þarf ekki að skilja til að virða. Skortur minn á skilningi eða getu til að setja mig í spor annarra má ekki skapa hindranir fyrir annað fólk. Rétt eins og ég treysti verkfræðingum til að reikna út burðarþol á húsinu mínu án þess að skilja útreikningana sjálf, þá treysti ég jaðarsettu fólki til að greina hindranirnar sem samfélagið hefur skapað fyrir þau.

 

ÓGN?


Það er þó rétt að þessar breytingar (sem ég ítreka að eru ekki öfgakenndar) hafa kallað á öfgakennd viðbrögð. Heila hreyfingu öfgahægris sem er leidd af mönnum eins og Trump. Hugmyndafræði þeirra elur á ótta við jaðarsett fólk og breytingar í þeirra þágu eru sagðar vera ógn við frelsi okkar hinna.


Hér heima er sama hugmyndafræði fyrst og fremst rekin af Trumpliðum Miðflokksins, en nýlegt dæmi er þó þegar Bjarni Benediktsson hélt að hann mætti ekki vera afi lengur. Þá ályktun dró hann út frá lagabeytingartillögu Pírata um að kenna mætti ófeðruð börn við foreldri foreldris af öllum kynjum í stað bara afa. Bjarni taldi sumsé að viðurkenning á tilvist ömmu og annarra stórforeldra* myndi hafa áhrif á stöðu hans sem afa. Óþarfa ótti, enda kallar viðurkenning á einhverjum hópum alls ekki á útrýmingu annarra. 

 

RAUNVERULEG ÓGN


Viðbrögð Trump við ræðu Mariann Edgar Budde eru eitt skýrasta dæmið um hversu ómálefnalegt það er að tala um skautun. Hann kallaði hana „svokallaðan“ biskup sem væri ekki starfi sínu vaxin. Hún væri róttæk harðlínu vinstrimanneskja og Trump hatari og að hún skuldaði kirkjunni og almenningi afsökunarbeiðni. Hann sagði ekkert um innihald ræðunnar.


Ef þið hafið ekki séð ræðuna, þá er ekki seinna vænna. Budde talaði af auðmýkt, mildi og einskærri kurteisi. Felldi enga dóma, heldur bað um miskunn og samkennd með tilvísun í Biblíuna. Að kenna slíkt við einhvert orðasalat af hatri, harðlínu, róttækni og vinstri stenst enga skoðun.


Tilvist, þátttaka og réttindi jaðarsetts fólk ógnar ekki frelsi okkar hinna. Það eru fyrst og fremst hræddir valdakarlar sem ógna því. Við megum ekki smitast af ótta þeirra, trúa því sem þeir segja eða sitja þegjandi undir ákvörðunum þeirra. Verum frekar eins og Budde og gefumst aldrei upp.


Bestu kveðjur


Sóley


*Stórforeldri er tiltölulega nýtt orð sem nær yfir kynsegin foreldri foreldris í eintölu og foreldri foreldra af öllum kynjum í fleirtölu (eins og besteforeldre(r) eða grandparent(s)).

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: