Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
AUKAHUGLEÐING III: ÚR LÝÐRÆÐI Í EINRÆÐI Á EINNI NÓTTU
Þegar ég vaknaði í morgun var ég farin að fylgja forseta og varaforseta Bandaríkjanna á Instagram. Þegar ég var búin að leiðrétta þann gjörning Meta las ég fréttir af nýjustu tilskipununum, að morgni annars dags eftir embættistöku.
Til viðbótar við tilskipanirnar sem ég nefndi í gær, um flóttafólk, kynsegin fólk og svart fólk, hefur allt starf sem lýtur að jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu verið lagt niður. Starfsfólk málaflokksins er þegar komið í leyfi og verður sagt upp fyrir lok mánaðar. Upplýsingar um aðgerðir og úrræði í þágu málaflokksins verða fjarlægðar úr opinberu efni.
Trump hefur lýst yfir neyðarástandi á tveimur sviðum; við landamærin að Mexíkó og í orkumálum. Yfirlýst neyðarástand veitir forsetanum vald til að bregðast við án aðkomu þingsins, sem hann hefur nýtt sér til hins ýtrasta.
FASÍSKIR TILBURÐIR
Fyrir átta árum var hvorki heimurinn né Trump undirbúinn undir valdatöku hans. Það tók hann tíma að fóta sig í starfinu, en hann fann sig hratt og örugglega og tókst að hafa óafturkræf áhrif á líf og líðan fólks um allan heim. Síðan þá hefur hann nært rætur öfgahægrisins, styrkt tengsl sín við áhrifakarla, fært til mörk og styrkt staðalmyndir.
Og nú virðist hann líta á þetta nýja kjörtímabil sem eins konar uppskeruhátíð. Hann er tilbúinn til að gera allt sem hann vill. Kann á kerfið, er með tengslin, á þetta og má þetta. Hann ætlar að móta þetta heimsveldi í þágu sín og sinna.
Atburðarrásin er beinlínis óhugnarleg. Hún ber öll merki þess að Bandaríkin séu á örfáum dögum að þróast úr lýðræðisríki í fasískt einræði. Forsetinn hefur þróað leiðir til að hafa vald yfir þegnum ríkisins, óháð aðkomu þingsins eða alþjóðlegum skuldbindingum um grundvallarmannréttindi. Hann og litli þröngi valdakarlakjarninn hans mega haga sér eins og þeir vilja og svífast einskis.
ANDSVAR
Þó það sé ekki auðvelt að vera jákvæð og uppbyggileg við núverandi aðstæður, þá er allt hægt. Það er nauðsynlegt að við tölum um hlutina eins og þeir eru. Að við setjum orð á fasismann sem við sjáum vaxa, að við bendum á nasistakveðjuna þegar hún er framin og að við mótmælum því að vera forspurð gerð að fylgjendum fasistanna á samfélagsmiðlum.
Það er líka nauðsynlegt að tala um samkennd, öryggi og inngildingu. Enginn hefur gert það betur en biskupinn Mariann Edgar Budde. Ég biðst afsökunar á að sýna ykkur myndband af Trump og Vance, en þetta er sjaldgæft sjónarhorn. Þarna sitja þeir undir fallegustu ræðu sem ég hef heyrt lengi, þar sem bent er á að innflytjendur leggja grunninn framlínuþjónustu landsins og eru að uppistöðu til gott fólk. Að það eru trans börn í öllum fjölskyldum, líka hjá repúblikönum. Og að við þurfum öll á samkennd og öryggi að halda.
Heimurinn sem Trump er að reyna að skapa getur ekki orðið að veruleika ef við hin högum okkur eins og Budde. Verum öll meira þannig. Forsetinn okkar, ríkisstjórn og sendiherrar geta talað við Trump eins og Budde, við hin getum talað þannig við okkar valdafólk og hvert annað. Hvetjum til samkenndar og stuðlum að öruggu og inngildandi samfélagi þar sem fólk er metið að verðleikum eins og það er, bæði vegna sérstöðu sinnar en líka þrátt fyrir sérstöðu sína.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl