Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


AUKAHUGLEÐING II: UNGFRÚ ÍSLAND, VIGDÍS OG FRAMTÍÐIN

Ég var núna loksins að ljúka við Ungfrú Ísland, eftir Auðu Övu Ólafsdóttur. Ljúfsára sögu sem gerist á sjöunda áratugnum, um Heklu sem vill verða skáldkona og vin hennar Jón John sem er hommi. Um fólk sem reynir að finna hamingjuna þrátt fyrir að falla ekki að viðmiðum samfélagsins. Það var umhugsunarvert að hlusta á bókina eftir að horfa á þættina um Vigdísi frá sama tímabili.


Þessi nasasjón af íslensku samfélagi á sjöunda áratug síðustu aldar er tilefni til að gleðjast yfir þeim framförum sem hafa átt sér stað, en er líka ágætur spegill á viðmið, gildi og félagslegt aðhald sem er að mörgu leyti enn við líði.

 

ÞÁ


Báðar sögurnar gerast þegar fyrstu konurnar eru að fara út af heimilunum og fyrstu hommarnir eru að gægjast út úr skápum. Fólk sem þurfti að fikra sig framhjá hættum samfélagsins til að valda ekki sér og sínum nánustu skömm. Fólk sem þurfti að velja.

 

Hekla þurfti að velja milli þess að eiga mann og verða skáldkona. Jón John þurfti að velja á milli þess að búa á Íslandi og fá að vera hommi. Vigdís þurfti að velja á milli þess að taka þátt í kvennabaráttunni og vera leikhússtýra.


Ég veit að þetta er mikil einföldun. Ekkert þeirra þurfti að velja. Það er auðvelt fyrir mig að dæma þau fyrir að taka ekki slaginn og gera bæði. En ég veit líka að slagirnir sem þau hefðu þurft að heyja hefðu getað orðið þeim dýrkeyptir.

 

 

Í dag er samfélagið breytt. Samkynhneigð þykir ekkert tiltökumál, né heldur að konur skrifi bækur. Konur hafa brotist út á vinnumarkaðinn og brotið mörg af glerþökunum sem þar leyndust. Sýnileiki allrar flóru hinsegin fólks hefur aldrei verið meiri og heljarinnar vitundarvakning hefur átt sér stað um allan þann flæðandi fjölbreytileika sem kyn, kynhneigð og kyntjáning hefur yfir að ráða. Fatlað fólk tekur virkari þátt í samfélaginu sem og fólk frá mörgum ólíkum löndum með ólíkan bakgrunn, tungumálakunnáttu, líkamsgerð, þarfir, væntingar og þrár.


ENN


Þrátt fyrir stórtækar breytingar eru staðalmyndir gömlu daganna lífseigar og samfélagslegt aðhald enn sterkt. Ómeðvituð hlutdrægni og fordómar valda sýnilegum og ósýnilegum hindrunum sem búa til ósanngjarna valkosti fyrir jaðarsett fólk. Valkosti milli þess að aðlagast valdakerfinu eða reyna að breyta því og útrýma hindrununum.


Við höfum tilhneigingu til að vera bara duglegri, bæta upp fyrir skringilegheitin með einhverjum hætti og láta eins og allskyns útlokandi/óviðeigandi atvik eigi sér ekki stað. Af tvennu illu er það nefnilega auðveldara en að ætlast til þess að vera metin að verðleikum eins og við erum, að komið sé til móts við þarfir okkar og að brugðist sé við útilokandi/óviðeigandi atvikum. Það er skárra fyrir einstaklinginn en verra fyrir samfélagið.

 

FRAMTÍÐIN

 

Í miðjum þessum pælingum var svo Donald Trump settur í embætti forseta Bandaríkjanna í gær og hét því strax á fyrsta degi að banna kynsegin fólk, reka flóttafólk úr landi og afnema reglugerð um réttindi svarts fólks. Trump á sér skoðanasystkini á Íslandi og um allan heim. Framfarirnar sem hafa átt sér stað frá því Vigdís, Hekla og Jón John leituðu hamingjunnar eru því í raunverulegri hættu.


Það er miklvægara en nokkru sinni að við stöndum vörð um mannréttindi, að við beitum okkur fyrir kerfislægum breytingum og inngildandi samfélagi. 


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: