Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


AUKAHUGLEIÐING I: SAMTAKAMÁTTUR KVENNA

Fyrirvari: Í síðustu hugleiðingu sagðist ég ætla að vera extra kraftmikil í þessari viku. Það þýðir að ég mun skrifa eina hugleiðingu á dag til að skapa umræðu á Meta en þið þurfið auðvitað ekki að lesa þetta allt. Ég lofa að eftir þessa viku verða hugleiðingarnar aftur bara vikulegar.


Aktívistahópurinn Öfgar var lagður niður í síðustu viku. Mér finnst eins og Öfgar hafi alltaf verið til, en samt starfaði hópurinn bara í nokkur ár. Mér finnst líka eins og Öfgar hafi verið fjöldahreyfing en samt voru þær bara sex.


Á stuttum tíma höfðu fáar konur stórkostleg áhrif. Þær stóðu með þolendum, nafngreindu gerendur, fræddu félagasamtök, stofnanir, skóla og almenning um nauðgunarmenningu, gerendameðvirkni og þolendskömm. Þær breyttu viðhorfum í samfélaginu. Þennan stórkostlega aktivisma stunduðu þær samhliða öllu öðru sem venjulegar konur gera frá degi til dags á fyrstu, annarri og þriðju vaktinni.

 

ÁHRIF KVENNAHREYFINGA


Eins og Öfgar segja í lokafærslu sinni á Instagram, þá hefur sagan sýnt okkur að femínísk öfl verða til þegar samfélagið þarf á þeim að halda. Samfélagið þurfti sannarlega á Öfgum að halda, rétt eins og öllum forverum þeirra ( s.s. Rauðsokkunum, Femínístafélaginu, Úunum, Skottunum og Bríetunum).


Samfélagið hefur líka haft þörf fyrir hagsmunasamtök kvenna innan karllægra geira, s.s. atvinnulífsins, tæknigeirans, stjórnmálahreyfinga, lækna- lögfræði- og tæknigerans svo einhver dæmi séu nefnd.


Ekki síst hefur samfélagið svo notið góðs af almannaheillasamtökum kvenna, enda hafa þau leitt af sér framfarir á borð við Barnaspítala Hringsins, Hvíta bandið, Stígamót, Kvennaathvarf og Mæðrastyrksnefnd.


Ég tek fram að þetta er hraðsoðin, ábyrgðarlaus og alls ekki tæmandi upptalning til að vekja hughrif hjá lesendum. Samtökin eru miklu fleiri og árangurinn miklu meiri ef allt væri talið.

 

SAMTAKAMÁTTURINN


Engar framfarir hafa orðið fyrir tilstuðlan einstaklings á sviði jafnréttis eða mannréttinda. Þær hafa alltaf orðið af því að fólk ræddi saman um það sem betur mætti fara og ákvað að beita sér í sameiningu að beita sér fyrir úrbótum. Einstaklingar hafa auðvitað haft mismikil áhrif, en þær áhrifaríkustu hafa ekki gert neitt án baklands.


Ég geri ráð fyrir að lesendur þessarar hugleiðingar séu að uppistöðu til hugsjónafólk sem langar til að breyta. Jafnvel hugsjónafólk sem er þreytt á hversu hægt allt gengur, hefur áhyggjur af bakslagi og líður eins og það hafi allt of lítið að segja. Við ykkur vil ég segja: Stofnið samtök!

 

AKTÍVISTABANDALÖG


Samtök þurfa ekki að vera með kennitölu. Þau þurfa ekki að vera með stefnuskrá eða fundadagatal. Þau þurfa bara að vera bandalag sem inniheldur fleiri en eina manneskju sem er til í að leita leiða og vinna saman að framförum. Svona bandalög er hægt að mynda innan deilda, stofnana, vinnustaða, bekkja, félagasamtaka eða vinahópa og þau eru alltaf árangursríkari en ef þú ákveður ein/nn/tt að reyna að stuðla að breytingum.


Líttu í kringum þig og finndu fólk sem þér finnst líklegt að hafi sambærilegar hugsjónir. Fáið ykkur saman kaffi og ræðið hvort ekki sé hægt að vinna saman. Sama hvert viðfangsefnið er (óviðeigandi húmor, ósanngjarnt verðmætamat, óáþreifanleg útilokandi menning, þriðja vaktin eða eitthvað allt annað), þá er líklegra að þið getið í sameiningu haft áhrif þar á en þú ein/nn/tt.

 

TAKK ÖFGAR


Að lokum vil ég þakka Öfgum frá mínum dýpstu hjartarótum fyrir allt sem þær hafa gert fyrir mig og samfélagið. Takk, Tanja, Ólöf Tara, Hulda Hrund, Þórhildur Gyða, Helga og Ninna. Ég hlakka til að sjá hvert framtíðin leiðir ykkur og okkur hin.


Öfgar voru ekki síðustu aktívistasamtökin og konurnar fimm eiga eftir að halda áfram hver með sínum hætti þó þær hafi kastað boltanum til okkar hinna í bili. Grípum hann og finnum fólk til að spila með okkur næsta leik!


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: