Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

KONA VIKUNNAR: BERIT ÅS

Í vikunni spurði þátttakandi á námskeiði hjá mér hvað væri hægt að gera til að bregðast við öllum óáþreifanlegu birtingarmyndunum sem karllæg vinnumenning hefur alið af sér. Það sé alveg nógu flókið að bregðast við því sem við vitum og getum útskýrt að sé rangt en sumt sé svo lúmskt að allar tilraunir til viðbragða geti hreinlega virst sem ofsóknarbrjálæði.

Þetta er vel þekkt vandamál og hefur alltaf staðið mannréttindabaráttu fyrir þrifum. Allt of mikil orka hefur farið í að skilgreina og útskýra vandamál og réttlæta baráttuna fyrir breytingum. Þess vegna er mikilvægt að við þekkjum þær greiningar og skilgreiningar sem til eru á birtingarmyndum karllægrar menningar og höldum áfram að byggja upp þekkingu og skilning á mikilvægi þess að uppræta þær.

DROTTNUNARAÐFERÐIR BERITAR ÅS

Berit Ås er norskur femínisti og samfélagsrýnir og hefur stundum verið kölluð ljósmóðir norsku kvennahreyfingarinnar. Eitt af mörgu sem hún hefur áorkað er kenningin um drottnunaraðferðirnar fimm, þar sem hún greinir samskipti fólks í daglegu lífi. Drottnunaraðferðirnar eru greinilegastar þegar valdamisræmi er til staðar, sérstaklega þegar ríkjandi menningu er ögrað.


  1. Að gera fólk ósýnilegt
    Þegar horft er framhjá framlagi kvenna og jaðarsetts fólks, hvort sem er á opinberum vettvangi eða í persónulegum samskiptum. Framkoman er til þess fallin að konur og jaðarsett fólk upplifi framlag þeirra og skoðanir léttvægar og skipti ekki máli. Dæmi um þetta eru meðal annars hrútskýringar og menndurtekningar

  2. Að gera fólk hlægilegt
    Þegar lítið er gert úr skoðunum, athugasemdum og gagnrýni kvenna og jaðarsetts fólks með tengingum við tilfinningasemi eða kynbundna/líffræðilega þætti. Framkoman er til þess fallin að konur og jaðarsett fólk efist um gildi og réttmæti skoðana sinna og þori síður að setja þær fram.

  3. Að leyna upplýsingum
    Þegar karlar eða yfirsett fólk skiptist á mikilvægum upplýsingum í eigin óformlega hópi sem koma ekki (eða seinna) fram á formlegum fundum. Þetta getur haft hamlandi áhrif þátttöku kvenna og jaðarsetts fólk í stefnumótun, ákvarðanatöku og almennri starfsemi vinnustaðarins.

  4. Tvöföld refsing
    Þegar konum og jaðarsettu fólki er legið á hálsi fyrir val sitt eða forgangsröðun í lífinu, bæði sem einstaklingum og/eða hópum. Dæmi um þetta er togstreitan milli vinnu og einkalífs og mantran um að konur þurfi bara að vera duglegri (KÞBAVD).

  5. Að framkalla skömm og sektarkennd
    Þessar vel þekktu tilfinningar meðal kvenna og jaðarsetts fólks eru framkallaðar m.a. með aðferðum 1-4 en aðrar vel þekktar aðferðir eru gerendameðvirkni og hannúð. Skömmin hefur áhrif á sjálfstraust og framlag kvenna og jaðarsetts fólks í daglegri starfsemi og hindrar fólk í að krefjast breytinga.

TÆKI TIL SJÁLFSSKOÐUNAR OG BREYTINGA

Það er mikilvægt að við þekkjum drottnunaraðferðirnar. Við þurfum að vera meðvituð um að við höfum öll tilhneigingu til að beita þeim og við þurfum að geta greint og bent á það þegar við verðum fyrir þeim.
Að upplifa sig sem ofsóknarbrjálaða þegar við verðum fyrir þessum aðferðum er mögulega vegna blöndu af 2 og 5. Að vita ekki hvort eigi að bregðast við eða ekki er líklega vegna 4: Ef þú bregst við geturðu búist við að verða fyrir 1, 2 og/eða 5 en ef þú bregst ekki við er líklegt að hegðunin og vanlíðanin sem hún veldur haldist óbreytt.

Vonandi gagnast þessi upprifjun fólki sem langar til að bæta eigin hegðun en líka þeim sem vilja geta bent á og krafist breytinga á þessum lúmsku birtingarmyndum karllægrar menningar.
 
Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: